143. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2013.

stimpilgjald.

4. mál
[19:38]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ef ég væri ekki í pontu Alþingis mundi ég segja: Fjandinn hafi það, ekki var þetta það sem menn stefndu að í upphafi. Ég bara trúi því ekki að hæstv. fjármálaráðherra og þeir ágætu þingmenn Framsóknarflokksins sem hér sitja undir þessari umræðu hafi lagt upp í ferðalagið til þess að gera ungu fólki erfiðara fyrir. Þetta hljóta að vera mistök eins og önnur mistök sem hæstv. fjármálaráðherra hefur bent á sjálfur að kunni að hafa orðið við gerð þessa frumvarps. Þetta er eitthvað sem menn hljóta að skoða vel.

Það dæmi sem hæstv. fjármálaráðherra las hér algjörlega rétt upp, ég hafði farið með það í ræðu minni áður, breytir engu. Þó að þetta ágæta fólk sem er andlag þessa dæmis komi vegna frumvarpsins betur út sem nemur 200 þús. kr. þá liggur hitt fyrir að því var sagt af hæstv. fjármálaráðherra að ef hann kæmist til valda hefði hann stefnu sem mundi gera þeirra hlut 280 þús. kr. betri. Það er málið. Þetta er kosningaloforð. Það eru engar sérstakar skýringar á því af hverju það er brotið frekar heldur en hinu að á þessum degi liggur það eftir hæstv. fjármálaráðherra að honum hefur tekist á fimm klukkustundum á einum eftirmiðdegi að brjóta þrjú kosningaloforð Sjálfstæðisflokksins. Geri aðrir betur.