143. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2013.

stimpilgjald.

4. mál
[19:40]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Mér fannst hv. þingmaður gera bara nokkuð vel þegar hann las upp úr kosningastefnu okkar sjálfstæðismanna fyrir síðustu kosningar og gerði grein fyrir því að markmiðið væri að lækka lántökukostnað — ekki satt? — með því að fella niður stimpilgjöld og auka samkeppni í fjármálaþjónustunni með breytingum á stimpilgjaldinu. Hvort tveggja er að takast með þessu frumvarpi. Eftir situr hins vegar að hv. þingmaður og einhverjir samstarfsmanna hans hafa áhyggjur af því að með því að lækka gjöldin af lánsskjölunum kunni fólki að verða gert of auðvelt að yfirgefa Íbúðalánasjóð og komast í betri kjör annars staðar. Það er vissulega göfugt markmið að festa menn í verri kjörum til þess að bregðast við þeirri stöðu sem Íbúðalánasjóður hefur komist í á grundvelli lagabreytinga sem ekki voru nægilega vel hugsaðar fyrir nokkrum árum síðan.

Er það virkilega það sem stendur upp úr eftir þennan málflutning að þingmenn Samfylkingarinnar hafi mestan áhuga á því að viðhalda stimpilgjaldinu á lánsskjölunum, kannski jafnvel að hækka það svo að við getum haldið þessu fólki alveg kirfilega föstu í viðskiptum hjá Íbúðalánasjóði vegna þess að menn hafa áhyggjur (Gripið fram í.) af framtíðarstöðu hans? Er það virkilega sýnin sem menn hafa á þetta mál? Er það virkilega það sem menn sjá fyrir sér að þeir geti best gert fyrir þá sem eiga hagsmuni af því að þessi breyting nái fram að ganga? Ég trúi því nú ekki. Ég held að annað hljóti að koma í ljós við vinnslu málsins í nefnd og í umræðum í þinginu.