143. löggjafarþing — 6. fundur,  9. okt. 2013.

störf þingsins.

[15:04]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Eins og allir vita er innanlandsflugið gríðarlega þýðingarmikið og sennilega er það eitthvert besta dæmi sem við höfum um almenningssamgöngur hér á landi. Flugsamgöngur til Þórshafnar, Vopnafjarðar, Gjögurs, Bíldudals og Grímseyjar eru meðal annars ein af lífæðum samfélagsins sem nauðsynlegt er að standa vörð um.

Við erum að tala um afskekktar byggðir þar sem við vitum öll að flugið skiptir gríðarlega miklu máli til að treysta byggð og tryggja þjónustu við fólk og fyrirtæki. Ef þessi þjónusta verður skert eða henni hætt mundi það draga verulega úr aðgengi íbúa landsbyggðarinnar að heilbrigðisþjónustu, stjórnsýslu og viðskipta- og menningarlífi. Líklegt er að kostnaður við sjúkraflug muni einnig aukast og öryggi sjúklinga minnka.

Oft hefur verið fjallað um þessi mál, meðal annars í lok janúar 2011, þar sem hæstv. núverandi forseti Alþingis lýsti áhyggjum sinum vegna þróunar í innanlandsflugi ásamt þingmönnum núverandi ríkisstjórnarflokka. Skerðingar upp á 200 milljónir á Isavia, sem er rekstrarfélag flugvalla á Íslandi, koma til með skerða samkeppnishæfni landsbyggðarinnar og munu líklega hækka lendingargjöld sem fara svo út í flugverðið.

Ríkisvaldið hefur komið að því að styðja einstakar flugleiðir og það skiptir miklu máli en langmestur hluti umferðarinnar fer engu að síður um flugleiðir sem eru reknar á viðskiptalegum forsendum. Allt er þetta flug mjög háð því hvernig umhverfi rekstrarins er og ljóst að slíkur niðurskurður sem gerður er í frumvarpi til fjárlaga nú, bæði á Isavia og á óarðbæru flugleiðirnar — enda liggur ekki fyrir hvernig þessi hagræðingarkrafa verður útfærð — kemur til með að hafa mikil áhrif á lífskjör og lífsgæði fólks á þessum stöðum.

Mig langar að spyrja hv. þm. Höskuld Þór Þórhallsson hvort það samræmist stefnu ríkisstjórnarinnar, um eflingu byggða og jafnrétti til búsetu, að skerða innanlandsflugið og sér í lagi stuðning við óarðbært flug til þeirra staða sem ég taldi upp hér áðan. Ég treysti á hv. formann umhverfis- og samgöngunefndar, að hann taki þátt í að verja (Forseti hringir.) flugsamgöngur til þeirra staða sem búa við lakari samgönguskilyrði og (Forseti hringir.) og að þær fái þann stuðning sem nauðsynlegur er.