143. löggjafarþing — 6. fundur,  9. okt. 2013.

störf þingsins.

[15:09]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Á fundi velferðarnefndar í morgun ræddum við við hæstv. heilbrigðisráðherra um forgangsröðun í heilbrigðiskerfinu og hvernig væri hægt að finna meira fjármagn til þess að mæta brýnum vanda Landspítalans og heilbrigðisstofnana í landinu.

Nú þegar ársreikningar stórúgerðarfyrirtækja eru að koma inn og hvert stórútgerðarfyrirtækið á fætur öðru skilar gífurlegum hagnaði og miklum arði sem menn taka til sín verður maður hugsi yfir því þegar stórútgerðirnar nýta sameiginlega auðlind okkar allra landsmanna hvernig fjármununum er skipt og hvort við þurfum eingöngu núna við vinnu þessa fjárlagafrumvarps að horfa í það að kroppa af öðrum liðum til að setja í heilbrigðiskerfið, hvort ekki sé ástæða til að horfa til þessarar auðlindar okkar og hvort stórútgerðarmenn muni ekki sjálfir að eigin frumkvæði óska eftir því við ríkisvaldið að fá að leggja meira af mörkum til þess að styrkja heilbrigðiskerfi okkar landsmanna. (Gripið fram í: Heyr, heyr!) Ég hef þá trú að það séu til réttsýnir útgerðarmenn sem mundu vera stoltir af því að geta komið fram og lagt meira af mörkum og sagt bara: Hér erum við, við getum lagt meira af mörkum og við gerum það með stolti.

Ég skora á alla útgerðarmenn landsins að hugsa þetta með þeim hætti og vera sjálfum sér og þjóð sinni til sóma og koma Landspítalanum til aðstoðar við þessar erfiðu aðstæður og leggja sitt af mörkum. Ég held að þeir mundu uppskera annað viðhorf í þjóðfélaginu gagnvart útgerð sinni og þeim deilum sem hafa verið í gegnum tíðina um hvernig þessari sameiginlegu auðlind er skipt með því að sýna slíkt frumkvæði og ganga fram og sýna þjóðinni þann sóma að (Forseti hringir.) byggja upp nýjan Landspítala með framlagi sínu. (Gripið fram í.)