143. löggjafarþing — 6. fundur,  9. okt. 2013.

störf þingsins.

[15:11]
Horfa

Margrét Gauja Magnúsdóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Í fréttum í dag er mikið rætt um bættan hag íslenskra heimila en í nýju riti Seðlabankans um fjármálastöðu kemur fram að skuldir heimilanna hafa lækkað um 3,2% að raunvirði það sem af er þessu ári. Færri glíma við skuldavanda nú en áður. Árið 2010 skulduðu rúm 35% einstaklinga 95% eða meira af eignum sínum. Það hlutfall er komið niður í 31%. Ástæðan er sú að fasteignaverð hefur hækkað og afskriftir hafa aukist og það segir okkur að efnahagsreikningur heimilanna hefur eflaust batnað en það hefur lítið með rekstur að gera þar sem kaupmáttur hefur eingöngu hækkað um 1,3% síðustu 12 mánuði.

Ég vil árétta að þó að staðan hafi batnað þá er hún ekki góð. Almenningur berst í bökkum til að láta enda ná saman og hlúa þarf sérstaklega að barnafjölskyldum þessa lands og jafna stöðu íslenskra barna. Ég vil nota þetta tækifæri og hvetja ríkisstjórn Íslands til að gleyma ekki íslenskum almenningi. Ég velti fyrir mér hvort þessar tölur, bæði frá Seðlabanka Íslands og Hagstofunni, valdi því að ekkert bólar á kosningaloforðum stjórnarflokkanna í þágu heimilanna, t.d. eins og að setja þak á verðtrygginguna sem var lofað sem bráðaaðgerð þetta vor.