143. löggjafarþing — 6. fundur,  9. okt. 2013.

störf þingsins.

[15:15]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Mig langar að vekja athygli hv. þingheims á því afturhvarfi til fortíðar sem felst í fyrirætlun hæstv. utanríkisráðherra að fjölga svokölluðum sérfræðingum við sendiráð Íslands í Brussel. Í því er auðvitað verið að koma til móts við þann veruleika að að jafnaði eru um 20% þeirra þingmála sem hér eru samþykkt EES-mál og á yfirstandandi þingi þennan vetur er gert ráð fyrir því að þriðjungur þingmála sem hæstv. ríkisstjórn leggur fram verði af þessari ætt.

Það er því í þessu ákveðin viðurkenning á því að við borðið í Brussel eru teknar veigamiklar ákvarðanir sem hafa áhrif á alla Íslendinga. Ekki er verið að gera neina tilraun til að koma íslenskum sérfræðingum að því borði heldur fyrst og fremst verið að fjölga þeim í anddyri Evrópusambandsins. Þetta er auðvitað háðulegt í ljósi þess að nú nýverið, fyrir rétt tæpu ári, kom út skýrsla sem Norðmenn tóku saman um reynslu sína af slíkri hagsmunagæslu sérfræðinga á vegum sendiráðs þeirra. Það er því miður afar takmarkaður árangur sem slík hagsmunagæsla hefur náð. Þó verja þeir miklu meiri fjármunum en Íslendingar til þessa málaflokks og miklu meiri fjármunum en þeim sem Íslendingar hyggjast gera með þeim breytingum sem hæstv. utanríkisráðherra leggur hér til.

Það er mikilvægt fyrir þingheim, og sérstaklega þann meiri hluta sem hefur tekið að sér að hafna tækifærum fyrir fram sem Íslendingum bjóðast á þessum vettvangi, að hafa þetta í huga.