143. löggjafarþing — 6. fundur,  9. okt. 2013.

störf þingsins.

[15:22]
Horfa

Valgerður Gunnarsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Mig langar að gera hér að umtalsefni vandamál sem framhaldsskólar landsins hafa lengi staðið frammi fyrir en það er brottfall. Brottfall í íslenskum framhaldsskólum er með því hæsta sem gerist og það er verulegt áhyggjuefni og ég sem fyrrverandi skólameistari deili því áhyggjuefni með kollegum mínum núna.

Á síðasta ári fékk mennta- og menningarmálaráðuneytið íslenska framhaldsskóla til að skrásetja ástæður brottfalls. Það voru fyrst og fremst náms- og starfsráðgjafar sem tóku það að sér. Það sem kom í ljós eftir þennan síðasta vetur var að 1002 nemendur hurfu frá námi af ýmsum ástæðum. Það eru um 5% af þeim fjölda sem eru í framhaldsskólum á Íslandi í dag, í öllum árgöngum. Það sem kom út úr þeirri skrásetningu var að mismunandi ástæður eru fyrir brottfalli sem auðvitað þarf að skoða betur. Það er ekki afgerandi munur milli kynja í heildina en þó nokkur munur og kemur í ljós að nemendur sem hætta eða vísað er úr námi vegna lélegrar mætingar eru um fjórðungur af þeim nemendum sem hverfa frá námi.

Það er því miður ekki lengri tími hjá mér til að fara ítarlegar í þetta en ég ætla gjarnan að koma aftur og ræða um það. Við þurfum að skoða málið alvarlega því að þetta hefur slæm áhrif á sjálfsmynd nemenda, þetta er þjóðhagslega óhagkvæmt og það þarf að gera gangskör að því að bæta þá stöðu.