143. löggjafarþing — 6. fundur,  9. okt. 2013.

störf þingsins.

[15:27]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Herra forseti. Í gær bárust fréttir af því að önnur stærsta verslunarkeðja landsins hefði skipt um eigendur og af fréttum að dæma er kaupandinn andlitslaust fyrirtæki í eigu nokkurra athafnamanna ásamt því að vera í eigu sjóðs sem er í eigu sjóðs sem er í eigu lífeyrissjóðanna. Ég er mjög hugsi yfir þessari þróun, ekki síst vegna þess að þessi sama uppskrift virðist hafa verið notuð að eignarhaldi þegar stærsta verslunarkeðja landsins var seld fyrir nokkru síðan.

Ég bar satt að segja þá von í brjósti að aðkoma eða eignarhald lífeyrissjóða að verslunarfyrirtækjum mundi leiða til lægra vöruverðs til neytenda en þess sér því miður ekki stað heldur þvert á móti. Þetta kristallast meðal annars í því að þessi umrædda stærsta verslunarkeðja landsins hagnaðist um 3 milljarða kr. í fyrra. Ekki hefur farið mikið fyrir umræðum um þennan hagnað í þessum sal undanfarið. Samt er hann sóttur — hvert? Beint í vasa neytenda, beint í vasa heimilanna í landinu.

Ég verð að segja að ég óttast ögn að með þessum viðskiptum sé enn stefnt að meiri samþjöppun á þessum markaði á Íslandi og var hún ærin fyrir. Ég hlýt að bera þá von í brjósti að okkar góða fólk sem vinnur í Samkeppniseftirlitinu muni taka þessi viðskipti til gaumgæfilegrar athugunar með það fyrir augum hvort þau standist virkilega samkeppnislög eins og þau eru í dag. Ég held að við þurfum síst á því að halda að auka fákeppni á þessum markaði.