143. löggjafarþing — 6. fundur,  9. okt. 2013.

staða Landspítalans.

[15:55]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. „Alvarlegt en „slapp fyrir horn““ var fyrirsögn í fjölmiðli í dag um ástand sem skapaðist á Landspítalanum þegar bæði sneiðmyndatækin biluðu. Með leyfi forseta er orðrétt haft eftir framkvæmdastjóra lækninga á Landspítalanum:

„„Þetta slapp fyrir horn en ástandið hefði geta orðið mjög erfitt ef við hefðum fengið inn alvarlega slasaða sjúklinga á þessum nokkrum klukkutímum á meðan bæði tækin voru biluð,“ segir Ólafur Baldursson, framkvæmdastjóri lækninga á Landspítalanum.“

Alvarlegt en „slapp fyrir horn“.

Þetta er bara varðandi brýnustu tæki, eitt stórt tæki að vísu, við gefum okkur ekki tíma til að ræða núna um öll smátækin. Núna þegar hæstv. ríkisstjórn hefur kastað frá sér 20 milljörðum í tekjur á fyrstu skrefum sínum sem ríkisstjórn vogar hún sér að koma fram með fjárlagafrumvarp þar sem skornar eru niður 600 millj. kr. sem settar voru inn til tækjakaupa af síðustu ríkisstjórn við 2. umr. fjárlaga og það skiptir engu máli þótt það hafi verið þar, það er jafn löglegt fyrir það. Fyrrverandi ríkisstjórn var búin að forgangsraða þannig að það yrðu 900 millj. kr. til tækjakaupa á Landspítala næstu þrjú ár. Það sem núverandi hæstv. ríkisstjórn birtir okkur í sínu fyrsta fjárlagafrumvarpi er að hún ætli að skera þar niður. Svei. Svei ríkisstjórninni fyrir það.

Það er hins vegar ánægjulegt að sjá hvern stjórnarþingmanninn á fætur öðrum skrifa greinar eða koma í ræðustól Alþingis, andmæla þessu og segja að þetta sé ekki hægt. Forsætisráðherra er líka í broddi fylkingar við að afsegja sínu eigin fjárlagafrumvarpi. Það er gott.

Ég segi að lokum, virðulegi forseti, að ég lýsi yfir (Forseti hringir.) stuðningi við þær tillögur sem menn eru hér að tala um, (Forseti hringir.) tillögur um aukna peninga til tækjakaupa á Landspítalanum. (Forseti hringir.) Bygginguna ræðum við síðar.