143. löggjafarþing — 6. fundur,  9. okt. 2013.

staða Landspítalans.

[16:01]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Það hefur þurft að skera mjög mikið niður í framlögum til Landspítala – háskólasjúkrahúss á undanförnum árum af augljósum ástæðum. Það verður ekki lengra farið í þá átt. Þannig er staðan einfaldlega. Annars hrynur þjónustan og þetta er hornsteinninn að heilbrigðisþjónustu Íslendinga og það yrði okkur alveg gríðarlegt áfall ef þjónustan þarna mundi hrynja. Okkur hafa borist fregnir um það að starfskraftar á Landspítalanum, mikilvægir starfskraftar, deildarlæknar og næst hugsanlega sérfræðingar leita til annarra landa eftir störfum. Það er birtingarmynd á hruni á þjónustunni. Þetta er raunverulega að gerast. Við getum ekki farið lengra í niðurskurðarátt á Landspítalanum.

Ég fagna því að hér virðist vera að myndast samhljómur meðal þingmanna og fullur skilningur á því að við verðum að breyta fjárlagafrumvarpinu sem er fyrirliggjandi í þá átt að auka framlög til Landspítalans svo hægt verði að fara í nauðsynleg tækjakaup, nauðsynlegt viðhald og uppbyggingu. Þetta er vel hægt og ég vil hvetja til þess í þessari vinnu að við skoðum ekki bara útgjaldalið sem er fyrirliggjandi í fjárlagafrumvarpinu heldur líka tekjuhliðina.

Það er raunveruleg spurning og fyllilega málefnaleg hvort ástæða sé til þess að fara í 0,8% lækkun á tekjuskatti í milliþrepi akkúrat núna þegar fjárþörfin er svona mikil í þessari mikilvægu stofnun í heilbrigðisþjónustunni. Það eru 5 milljarðar. Það er hægt að sækja þessa peninga þangað og byrja uppbyggingu á Landspítalanum. Það er einfaldasta leiðin.

Svo er ég fyllilega til í það og við þingmenn Bjartrar framtíðar erum mjög til í það að skoða hvernig hægt er að hagræða í öðrum sviðum ríkisrekstrarins en ég er búinn að benda hér á einföldustu leiðina til að rétta við fjárveitingar til Landspítalans, þannig að þetta er hægt.

Svo vil ég líka fagna því að mér finnst vera að myndast meiri samhljómur en oft áður á undanförnum mánuðum fyrir því að auðvitað þarf að endurnýja húsakost Landspítalans. Þar þurfum við að (Forseti hringir.) leita að hagstæðum fjármögnunarleiðum og einfaldlega vinda okkur í það verkefni. (Forseti hringir.)