143. löggjafarþing — 6. fundur,  9. okt. 2013.

staða Landspítalans.

[16:10]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka sömuleiðis þá umræðu sem hér hefur farið fram og þann samhljóm sem er í umræðunni.

Hér hefur verið fullyrt að ekki hafi verið neinn niðurskurður í fjárveitingum til heilbrigðismála í fjárlögum ársins 2013. Ég spyr á móti: Hvernig stendur á því að Landspítalinn er rekinn með 1 milljarðs halla? Er það fyrir slælega stjórnun? Nei, það held ég ekki. Ég held einfaldlega að ekki hafi verið gert ráð fyrir þeim útgjöldum í fjárlögum ársins.

Hér er spurt: Hverjar eru áætlanir um byggingu Landspítala – háskólasjúkrahúss? Það liggur fyrir í minnisblaði frá stjórn nýja Landspítalans að gerðar voru áætlanir á árinu 2012 um bygginguna. Áætlunin var unnin á því ári og þá var miðað við að framkvæmdirnar gætu hafist á árinu 2013. Hvers vegna skyldi það ekki hafa gerst? Jú, í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2013 segir: „Ljóst er að það getur ekki orðið þar sem engar fjárheimildir hafa verið veittar til framkvæmdanna …“ Í fyrsta skipti á fjárlögum er nú merkt fjárveiting til þessa verkefnis þótt hún sé ekki há. (SII: Nei.) Það er þó áfangi, 100 millj. kr. í fjárlagafrumvarpi ársins. Rétt skal vera rétt.

Þegar menn ræða um að ekki sé magnaukning í rekstrinum — verum sanngjörn í þeim efnum. Það liggur fyrir að 40–50 færri hjúkrunarrými verða á Landspítalanum á næsta ári en hafa verið allt þetta ár. (Gripið fram í: Sjúkrahúsin …) Því á að starta núna á haustmánuðum og það er búið að tryggja til þess fjármuni.

Verum sanngjörn. Við deilum öll sömu skoðun á því hvað þarf að gera þarna. Hættum að nudda hvert öðru upp úr því sem betur hefði mátt fara og einbeitum okkur að því að finna lausn á þessum vanda. Það hefst ekki með því þrasi sem menn bjóða upp á um þessi mál. Við erum í grunninn (Gripið fram í.) öll innilega sammála um það (Gripið fram í.) til hvaða ráða þarf að taka. (Gripið fram í: Þú lofaðir …)