143. löggjafarþing — 6. fundur,  9. okt. 2013.

sjúkraskrár.

24. mál
[16:20]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Hér mæli ég fyrir frumvarpi til laga um breytingar á lögum um sjúkraskrár. Þetta eru lög nr. 55/2009, en frumvarpið er að mati hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar á verra máli en hið fyrra sem ég mælti fyrir rétt áðan. Þetta mál var sömuleiðis lagt fyrir á 141. löggjafarþingi en var ekki afgreitt þá og er því endurflutt núna óbreytt. Tilefni frumvarpsins er að skýra frekar ákvæði 7., 14. og 15. gr. laga um sjúkraskrár með hliðsjón af hlutverki embættis landlæknis og velferðarráðuneytisins þegar tekin er ákvörðun um aðgang að sjúkraskrá.

Markmið frumvarpsins er að taka af allan vafa um rétt borgarans til að bera synjun um aðgang að sjúkraskrá, hvort sem um er að ræða eigin sjúkraskrá eða sjúkraskrá látins aðstandanda, undir embætti landlæknis. Jafnframt er lagt til að heimildir til að kæra þessar synjanir og ákvarðanir um leiðréttingu eða eyðingu sjúkraskrárupplýsinga til ráðherra verði felldar brott. Í frumvarpinu er loks lagt til að bætt verði við lögin ákvæðum um nauðsynlegan aðgang tæknimanna að sjúkraskrárkerfum þar sem slíkt ákvæði er ekki að finna í lögunum í dag.

Helstu efnisatriði frumvarpsins eru í fyrsta lagi að lagt er til að jafna stöðu borgaranna þannig að ávallt verði heimilt að bera synjun sjúklings um aðgang að eigin sjúkraskrá og aðgang að sjúkraskrá látins einstaklings undir embætti landlæknis. Breytingin er lögð til svo að lögin séu alveg skýr að því leyti en upp hafa komið ágreiningsmál varðandi þetta atriði. Eru þeir því ekki lengur bundnir af því að um sé að ræða tilgreind tilvik sem falla undir ákvæði 2. og 3. mgr. 14. og 15. gr. laganna.

Í öðru lagi eru hér lögð til ákvæði um að í málum um aðgang að sjúkraskrá sé bara eitt kærustig. Það er því lagt til að ákvarðanir embættis landlæknis um aðgang að sjúkraskrá og ákvarðanir um leiðréttingu eða eyðingu sjúkraskrárupplýsinga séu endanlegar á stjórnsýslustigi, þ.e. hjá landlækni. Skiptir máli í því sambandi að líta til þess að ákvarðanir eru almennt faglegs eðlis og eðlilegt er að leitað sé til landlæknisembættisins fremur en ráðuneytisins um endurskoðun þeirra, enda væru heimildir ráðuneytisins til efnislegrar endurskoðunar takmarkaðar vegna þess sérfræðilega mats sem málin krefjast. Að sjálfsögðu er ávallt heimilt að bera ákvarðanir og niðurstöður landlæknis um aðgang að sjúkraskrá undir dómstóla.

Í þriðja lagi eru í frumvarpinu gerðar úrbætur á ákvæðum laganna um aðgang tæknimanna að sjúkraskrárkerfum þannig að heimilt sé að sinna nauðsynlegri uppfærslu, vinnslu og viðhaldi sjúkraskrárkerfa. Í núgildandi lögum er aðgangur að sjúkraskrá óheimill nema lagaheimild standi til, þar er ekki gert ráð fyrir aðgangi tæknimanna. Með breytingu þeirri sem lögð er til í frumvarpi þessu getur umsjónarmaður sjúkraskrár veitt starfsmönnum sem vinna að þjónustu við tölvu- og upplýsingakerfi nauðsynlegan aðgang að sjúkraskrárkerfi í þeim tilgangi að sinna vinnslu, uppfærslu og viðhaldi kerfisins svo að hægt sé að vinna við kerfin án þess þó að hleypa starfsmönnum inn í sjálfar einstaklingsupplýsingarnar. Þar gilda allar sömu trúnaðarundirskriftir og hjá heilbrigðisstarfsfólki.

Virðulegi forseti. Ég hef með þessum orðum gert grein fyrir meginatriðum frumvarpsins sem nú er endurflutt, en breytingar þær sem hér eru lagðar til varða hagsmuni borgara og réttindi sem er sérlega mikilvægt að séu skýr og afdráttarlaus gagnvart lærðum og leikum. Ég leyfi mér því að leggja til að frumvarpinu verði að lokinni umræðu vísað til hv. velferðarnefndar og 2. umr.