143. löggjafarþing — 6. fundur,  9. okt. 2013.

sjúkraskrár.

24. mál
[16:26]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka — (Gripið fram í.)þetta er andsvar, hv. þm. Össur Skarphéðinsson. Því er að sjálfsögðu svarað.

Varðandi þær ágætu ábendingar sem hv. þingmaður kemur með er þetta að segja: Samkvæmt mínum upplýsingum eiga tæknimenn fyrst og fremst að hafa aðgang að tæknilegum upplýsingum. Ég geri hins vegar ráð fyrir því að öll þau vafamál og álitaefni sem kunna að koma upp, eins og t.d. það sem hv. þingmaður nefnir, skili sér inn til nefndarinnar í meðförum hennar á frumvarpinu. Þar treysti ég nefndinni fyllilega til þess að taka afstöðu til slíkra álitaefna. Ég viðurkenni fúslega að ég er ekki með neina dýpri þekkingu á þeim tæknimálum sem þarna er um að ræða.

Allar viðvaranir um of mikið frelsi í aðgengi að þessum viðkvæmu upplýsingum eru vel þegnar og ég styð þær vegna þess að þetta kerfi eða þær upplýsingar sem það geymir þarf að umgangast með mjög mikilli varúð og miklu öryggi. Mér er tjáð að tæknimenn eigi ekki að hafa aðgang að uppflettingu í skránum sjálfum heldur fyrst og fremst einhverjum kerfislegum þáttum sem ég kann engin skil á, en ítreka að nefndin hlýtur að skoða það álitaefni í meðförum sínum og væntanlega koma fram einhverjar ábendingar í umsagnaferlinu um þetta atriði.