143. löggjafarþing — 6. fundur,  9. okt. 2013.

leikskóli að loknu fæðingarorlofi.

6. mál
[16:44]
Horfa

Flm. (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um leikskóla að loknu fæðingarorlofi sem er flutt af þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og var flutt á nýliðnu sumarþingi og er nú endurflutt nánast óbreytt en náði að verða sent út til umsagnar og fá dálítið af viðbrögðum sem eru nánast samhljóða jákvæð og ég mun fara lítillega yfir í ræðu minni.

Við umræðuna í september þegar mælt var fyrir málinu má segja að hafi ríkt þverpólitískur stuðningur við málið í þingsal enda er um að ræða tillögu sem lýtur að samþættingu og samhæfingu þjónustu við barnafjölskyldur í landinu. Tillagan fjallar í raun um vinnufarveg þessa verkefnis sem er aðkoma hins opinbera, sveitarfélaga og ríkis, að kjörum og daglegu lífi barnafjölskyldna í landinu.

Við erum hér að ræða að setja þessa hugsun í skipulegan farveg, að samfélagið beri í sameiningu ábyrgð á tímabilinu frá því að fæðingarorlofi lýkur þar til hið skipulega leikskólastarf tekur við. Það hefur auðvitað verið viðfangsefni fjölskyldna um ára- og áratugaskeið, ef svo má að orði komast, að vinna úr þeim vanda sem upp kemur þegar fæðingarorlofi lýkur og áður en skipuleg daggæsla eða leikskóli tekur við.

Tillagan byggir á fyrri ákvörðun um það að fæðingarorlofsrétturinn verði tólf mánuðir frá 1. janúar 2016 að telja og tillagan byggir enn á þeirri forsendu þó svo að í nýframlögðu fjárlagafrumvarpi hafi núverandi ríkisstjórn því miður horfið frá þeim áformum. Ég tel að það sé samt sem áður ekki rætt til þrautar hver framtíðarsýnin eigi að vera hvað það varðar. Það hlýtur því að vera hluti af þeirri vinnu sem taka þarf mið af í þessari þingsályktunartillögu, þ.e. hvernig fyrri áformum reiði af um að lengja fæðingarorlofsréttinn í tólf mánuði og þá frá 1. janúar 2016 að telja.

Hér er gert ráð fyrir því að samhliða þeirri breytingu sjáum við hreyfingu hinum megin frá, ef svo má að orði komast, að í gegnum samráð af þessu tagi verði óvissu létt af foreldrum og ungbarnafjölskyldum, óvissunni sem ríkir um dagvistunarmál og leikskólamál, það má segja daglegt líf þessara barna, þ.e. þess aldurshóps sem um ræðir, með því móti að sveitarfélögin sjái til þess að leikskólar standi ársgömlum börnum opnir. Þannig verður unnt að tryggja bæði velferðar- og uppeldismarkmið samfélagsins og sveitarfélaganna, ríkisins og fjölskyldnanna í sameiningu, að þau markmið nái fram að ganga.

Tillagan eins og hún er sett fram hér er samhljóða þeirri sem var mælt fyrir í febrúar, eins og áður segir, og hljóðar þannig, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra að skipa í samráði við innanríkisráðherra nefnd með þátttöku sveitarfélaganna, sérfræðinga, hagsmunaaðila og stjórnmálaflokka er geri tillögu að áætlun um hvernig sveitarfélögin standi að því að bjóða leikskólaúrræði strax og fæðingarorlofi lýkur. Miðað verði við að þegar fæðingarorlofið hefur verið lengt í 12 mánuði árið 2016 verði sveitarfélög um landið reiðubúin að veita þjónustuna. Nefndin skili tillögum til ráðherra fyrir 1. febrúar 2014.“

Virðulegur forseti. Ég tel rétt að fara lauslega yfir þær umsagnir sem hafa borist því að þær endurspegla að mjög miklu leyti væntanlegt umfjöllunarefni allsherjar- og menntamálanefndar um þessa tillögu. Í fyrsta lagi sú umsögn sem kemur frá Alþýðusambandi Íslands þar sem áréttað er að hér sé um að ræða stefnumál sem sé eitt af baráttumálum verkalýðshreyfingarinnar á Íslandi sem snýst um að stuðla að samræmingu fjölskyldulífs og atvinnu.

Barnaheill fagnar tillögunni sem fram kom nú í september og fleiri aðilar eru til þess að fagna henni, en rétt er að nefna það í þessu samhengi að áhyggjuraddir komu frá Félagi dagforeldra sem telur að þarna sé vegið að starfsumhverfi þeirra og hefur áhyggjur af því að vinna af þessu tagi sé ekki endilega velferð barna til góðs. Ég tel í ljósi þeirra vangaveltna sem fram koma í umsögn Félags dagforeldra rétt að geta þess að sjálfsagt sé að þeir aðilar komi að vinnunni með þá sérfræðiþekkingu sem þar hefur skapast og þá miklu reynslu sem dagforeldrar búa yfir í því að sinna nákvæmlega því aldursbili sem hér er fyrst og fremst til umfjöllunar.

Mestu tíðindin, ef svo má að orði komast, í þeim umsögnum sem fram hafa komið eru í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga þar sem fram kemur efnislegur stuðningur við þingsályktunartillöguna enda sé það í sjálfu sér markmið til langs tíma að sveitarfélögin geti komið að vistun svo ungra barna þegar til lengri tíma er litið. Í umsögninni segir, með leyfi forseta:

„… leggur sambandið áherslu á að áður en tillögur eru settar fram um að öll sveitarfélög bjóði upp á leikskólavist frá 12 mánaða aldri þarf að liggja fyrir ítarleg stöðu- og kostnaðargreining.“

Virðulegi forseti. Ég get ekkert annað en tekið undir þessi sjónarmið. Það sem viðkomandi nefnd eða starfshópur mundi auðvitað taka að sér að gera er að fara ítarlega yfir kostnaðar- og stöðugreiningu þessa máls því að um er að ræða stóra kerfisbreytingu. Mér finnst afar jákvætt að Samband íslenskra sveitarfélaga skuli taka þessari tillögu þannig að líta svo á að hér sé ekki um einkamál hvers sveitarfélags fyrir sig að ræða heldur miklu frekar heildstæða hugsun. Það er akkúrat í þeim anda sem tillagan er sett fram.

Síðar í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga segir, með leyfi forseta:

„Markmið vinnunnar ætti m.a. að vera að greina bæði faglegar og fjárhagslegar hindranir að því markmiði sem fram kemur í þingsályktunartillögunni. Á grundvelli slíkrar greiningar kann síðar að vera ástæða til að hefja viðræður á milli ríkis og sveitarfélaga um leiðir til þess að innleiða slíka breytingu í áföngum. Slíkar viðræður gætu jafnframt verið liður í víðtækara samkomulagi milli ríkis og sveitarfélaga um áherslur í skólamálum, eins og rakið er í […] umsögn frá 18. apríl 2013.“

Samband íslenskra sveitarfélaga leggur því til að sú tillaga sem lögð er hér fram til þingsályktunar falli ágætlega að annarri stefnumótunarvinnu sem þegar er í farvatninu, eins og áherslur í skólamálum, þegar á heildina er litið.

Samband íslenskra sveitarfélaga leggur líka áherslu á það að að borðinu þyrftu að koma fulltrúar fjölmargra aðila, stjórnenda leikskóla, foreldra, dagforeldra, atvinnulífs og stéttarfélaga, og er það alveg í samræmi við það sem kemur fram í greinargerð með tillögunni. Ljóst er að verkefnið er mjög umfangsmikið og verður ekki unnið á stuttum tíma og ég tek undir þau orð sem fram koma í umsögn sambandsins.

Sambandið leggur hreinlega til að þingsályktunartillagan taki nokkrum breytingum og í stað þess að mennta- og menningarmálaráðherra verði falið að skipa í samráði við innanríkisráðherra nefnd um þátttöku sveitarfélaganna o.s.frv. þá álykti Alþingi að fela mennta- og menningarmálaráðherra í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga að skipa verkefnisstjórn og síðan samráðsnefnd sem er nokkuð reifað í umsögn sambandsins hvernig eigi að vera saman sett. Mér finnst það vera umfjöllunarinnar og skoðunarinnar virði að Samband íslenskra sveitarfélaga haldi um stýrið ásamt mennta- og menningarmálaráðherra, sem er ráðherra leikskólamála, í þessu mikilvæga samstarfs- og samþættingarverkefni, en það yrði þá eitthvað sem hv. allsherjar- og menntamálanefnd mundi skoða í framhaldinu.

Ég vil líka nefna hér umsögn frá Samtökum sjálfstæðra skóla sem fagna fram kominni tillögu og telja raunar löngu tímabært að efla samþætta þjónustu fyrir foreldra með mjög ung börn og að það fari vel á því að stefna að því að samfara lengingu fæðingarorlofs verði sveitarfélög í stakk búin að bjóða leikskólaúrræði að loknu fæðingarorlofi. Loks segja Samtök sjálfstæðra skóla að þau óski sérstaklega eftir að litið verði til þeirrar þekkingar og reynslu sem samtökin búa yfir og að rekstraraðilar þessara skóla, sem hafa margir hverjir sinnt þessum aldurshópi, skipi fulltrúa í nefndina.

Loks vil ég nefna umsögn Kennarasambands Íslands þar sem menn lýsa efnislegum stuðningi við málið en hafa áhyggjur af mönnun leikskóla þar sem um yrði að ræða töluverða fjölgun leikskólakennara í starfi. Þá þyrfti að horfa til menntunarúrræða fyrir leikskólakennara, sem hefur verið áhyggjuefni og umræðuefni undanfarinna ára, að fleiri mættu hefja nám í leikskólakennarafræðum, en ekki síður hefur kennarasambandið áhyggjur af stöðu kjaramála leikskólakennara og það er auðvitað nokkuð sem þarf að taka til umfjöllunar samhliða.

Virðulegi forseti. Tillagan er samhljóða þeirri sem var lögð fram í september. Þar sem stutt er um liðið frá því að hún var send til umsagnar er hún samhljóða og nánast óbreytt þannig að umsagnirnar sem komnar eru eiga í raun og veru við tillöguna sem hér er mælt fyrir og ætti þá að vera nefndinni til gagns við áframhaldandi vinnu.

Það hefur verið verkefni og viðfangsefni okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði og raunar vinstri hreyfingarinnar í íslenskri pólitík að leggja áherslu á mikilvægi leikskólastigsins. Það er mikilvægur þráður í vinstri stjórnmálum til langs tíma, ekki bara vegna mikilvægis jöfnunar aðstæðna fólks heldur líka vegna kynjajafnréttissjónarmiða og mikilvægis þess að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Það sem er mikilvægast af öllu er auðvitað tækifæri ungra barna til að njóta leikskólavistunar og leikskólamenntunar.

Vinstri hreyfingin – grænt framboð lagði fram nokkrum sinnum á árunum 2003–2005 þingsályktunartillögu um samstarf ríkis og sveitarfélaga um gjaldfrjálsan leikskóla og töluverð umræða hefur verið um það á sveitarstjórnarstiginu hversu mikil gjaldtakan eigi að vera á leikskóla og kannski bara yfir höfuð hvort almennt sé eðlilegt að taka há gjöld af foreldrum og fjölskyldum vegna þessarar þjónustu sem mætti kalla grunnþjónustu. Við höfum líka rætt um skólamáltíðir og stöðu þeirra. Við höfum rætt um frístundaheimili og gjaldtöku af þeim. Þetta eru auðvitað allt sama viðfangsefni sveitarfélaganna.

Ég vil taka það fram að meiningin með þessari tillögu er alls ekkert að seilast inn á verksvið sveitarfélaga með nokkrum hætti heldur miklu frekar að skapa samræðuvettvang. Ég tek eftir því í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga að sá skilningur er sameiginlegur að skapa samræðuvettvanginn. Meðan verið er að lengja fæðingarorlofið skref fyrir skref, eins og enn er markmið ríkisvaldsins þangað til annað kemur í ljós ef svo heldur fram sem horfir, þá er eðlilegt og æskilegt að sveitarfélögin sameinuð nálgist málið hinum megin frá þannig að öll sveitarfélögin verði reiðubúin þegar verður komið að því að lengja fæðingarorlofið að bjóða leikskólaúrræði strax að afloknu fæðingarorlofi.

Í tillögunni sem hér er lögð fram er lagt til að nefndin skili tillögum til ráðherra fyrir 1. febrúar 2014. Við gerum ráð fyrir að mennta- og menningarmálaráðherra, sem er ráðherra leikskólamála, setji saman samstarfshóp til að kanna möguleika á skipulagðri nálgun þess verkefnis sem er til umræðu og setji það í skipulagðan og samhæfðan farveg, ef svo má að orði komast, í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga. Þau sveitarfélög sem eru lengst komin í þessum efnum og þau sem eru í dreifðari byggðum horfast í augu við verulega mismunandi stöðu eftir því hvar er borið niður. Ég vona að það verði umræða hér um tillöguna og vænti þess að stjórnarmeirihlutinn taki henni með opnum hug og bjartsýni og að við setjum málið sameinuð í uppbyggilegan farveg.