143. löggjafarþing — 6. fundur,  9. okt. 2013.

leikskóli að loknu fæðingarorlofi.

6. mál
[17:18]
Horfa

Margrét Gauja Magnúsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta eru áhugaverðar tillögur og koma oft upp. Fyrir hrun var til dæmis mikill þrýstingur á að minnsta kosti sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu að þar kæmu til svokallaðar foreldragreiðslur. Það var farið ítarlega yfir það að það væri uppbót til þess að brúa bilið á milli fæðingarorlofsins og þess að barnið fengi pláss á leikskóla. Þegar það var skoðað betur kom í ljós að sveitarfélag sem er opinber stofnun getur ekki borgað fólki fyrir að vera heima. Þá er það í rauninni komið á laun og þarf að fara að borga af þeim upphæðum tekjuskatt og annað.

Þar sem sveitarfélag er opinber stofnun hefur það alls konar opinberum skyldum að gegna varðandi eftirlit og annað, hvort sem börnin eru heima hjá foreldrum sínum eða dagforeldrum. Yfirbyggingin og umgjörðin yrði mikil og því miður yrði þá einhver frá sveitarfélaginu að koma heim til foreldranna reglulega til að athuga hvort ekki væri allt í lagi. Hér er fyrst og fremst verið að nota fé almennings til að greiða foreldrunum fyrir að vera heima.

Í dag er kostnaðarþátttaka foreldra í leikskólagjöldum barna sinna um 25% sem er ekki há tala miðað við hvað það kostar að vera með barn á leikskóla. Síðan hafa líka verið gerðar úttektir og rannsóknir á hinum svokölluðu foreldragreiðslum og þær koma mjög illa við allt sem heitir jafnréttisbarátta. Það hefur líka sýnt sig að gagnvart þeim sem eru tekjulægstir eða standa höllum fæti í samfélaginu, vil ég nefna því miður innflytjendur, er þetta í rauninni tæki sem skapar fleiri vandamál en það leysir.

Margir þættir þarna standast ekki tekjustofna, (Forseti hringir.) lög eða skyldur og eftirlit opinberra aðila.