143. löggjafarþing — 6. fundur,  9. okt. 2013.

leikskóli að loknu fæðingarorlofi.

6. mál
[17:20]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég get ekki séð að ríkið hafi svakalega eftirlitsskyldu með börnum sem eru heima hjá foreldrum sínum, að farið sé inn á heimili fólks. Jú, að sjálfsögðu hefur ríkið eftirlitsskyldu með velferð barna en mér finnst það samt einkennilega orðað.

Kannski er þetta ekki gerlegt en mér þykir það samt einkennilegt í ljósi þess að við erum löggjafi. Eins og þú segir eru sveitarfélögin vissulega líka í spilinu og þess vegna er í þessari þingsályktunartillögu gert ráð fyrir að þau komi að borðinu og skoði þá hluti sem er verið að nefna í henni.

Það getur vel verið hægt að finna einhverja aðra lausn en þá að greiða fólki fyrir að vera heima hjá sér og nefna það einhverju öðru nafni. Fólk fær tékka til að senda börnin sín á leikskóla ef það vill en það getur notað tékkann í eitthvað annað. Kannski yrði það í lögum skilgreint sem laun og þyrfti þá að taka af því einhvers konar gjöld o.s.frv. En þetta er nokkuð sem mér fyndist áhugavert að skoða af því að þetta gerir þrennt. Þetta gefur foreldrum tækifæri til að vera meira heima hjá börnunum sínum sem er eitthvað það verðmætasta sem við getum gert í þessu lífi. Þetta minnkar álagið á þau leikskólapláss sem eru til staðar og þetta minnkar álagið á þau fáu störf sem eru í boði og minnkar þannig atvinnuleysi.

Hv. þingmaður virðist hafa skoðað þetta ágætlega en ég yrði mjög þakklátur fyrir að fá að sjá þær upplýsingar og hvaða rök eru þá gegn þessu. Mér finnst svo borðleggjandi að bjóða fólki upp á það að vera heima hjá börnunum sínum og leysa ýmis önnur vandamál á sama tíma, en þetta mun ég skoða nánar.