143. löggjafarþing — 6. fundur,  9. okt. 2013.

leikskóli að loknu fæðingarorlofi.

6. mál
[17:22]
Horfa

Margrét Gauja Magnúsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, þetta var skoðað í grunninn og því miður er það þannig að opinber stofnun sem sveitarfélag er, eða ríkisvaldið, Alþingi, eða ríkissjóður er, getur ekki gefið út óútfyllta eða ákveðna tékka til einstaklinga sisvona. Það yrði að vera þannig að viðkomandi einstaklingur gerði tvíhliða þjónustusamning við sveitarfélagið upp á að hann ætlaði að þjónusta barnið sitt heima og þá þyrfti hann að geta sýnt fram á ýmsar skyldur, rétt eins og dagforeldri og aðrir þurfa að gera við sveitarfélag þegar gerðir eru þjónustusamningar. Ef þetta ætti að vera tékki sem síðan er hægt að nota til að vera heima með barninu þýðir það í rauninni bara það að sveitarfélagið er að borga fæðingarorlof til tveggja ára, þriggja ára, fjögurra ára.

Þegar sveitarfélagið er farið að borga fæðingarorlof upp á þetta þarf það náttúrlega að skila alls konar tekjutengdum gjöldum sem því fylgir og fólk er þá á launum hjá sveitarfélaginu við að huga að barninu. Þegar það er hugsað þannig, hv. þingmaður, hvort það sé samt sem áður mikil hagræðing í því ef við hugsum sem svo að leikskólapláss fyrir barn kosti um 200 þús. á mánuði og í dag er kostnaðarþátttaka foreldra um 25–35 þús. kr. á mánuði svo þetta yrðu þá tekjur upp á tæpar 165 þús. á mánuði sem síðan þyrfti að taka af skatta og allt sem því fylgir, þá er ekki mikið sem mundi sitja eftir. Ég veit ekki hvort fólk kysi að lifa af þeirri upphæð með barn á framfærslu. Opinberum peningum af skattpeningum okkar allra er miklu betur varið í að byggja upp góða innri grunnþjónustu fyrir börnin í landinu. Ef fólk kýs svo að nýta sér ekki þá þjónustu er náttúrlega ekkert við því að segja. En ég sé það ekki fyrir mér, aldrei, að hið opinbera fylli út tékka og rétti einum eða öðrum sisvona.