143. löggjafarþing — 6. fundur,  9. okt. 2013.

leikskóli að loknu fæðingarorlofi.

6. mál
[17:25]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég fagna fram kominni þingsályktunartillögu um leikskóla að loknu fæðingarorlofi. Á liðnum áratugum höfum við orðið vitni að gríðarlegum breytingum í viðhorfum til leikskólans. Þegar mín kynslóð var að vaxa úr grasi var litið á þessar stofnanir sem félagslegt úrræði. Vöggustofur eða dagheimili voru nöfnin sem notuð voru og vísa ég þá í þann skilning að það væru geymslustaðir fyrir börn á meðan foreldrarnir gætu ekki sinnt þeim. Dagheimilisplássin voru eyrnamerkt einstæðum foreldrum, námsmönnum og öðrum slíkum þjóðfélagshópum.

Sú breyting í afstöðu til leikskólans sem átt hefur sér stað á liðnum árum þar sem farið er að líta á hann sem fyrsta skólastigið, menntastig þar sem mikilvægt og faglegt starf fer fram er að mínu mati jákvæð breyting í samfélagi okkar. Í dag líta stöðugt fleiri svo á að það að komast inn á leikskóla sé sjálfsagt réttindamál barna. Að auki má nefna að hann veitir gott tækifæri til að jafna uppeldisaðstöðu barna óháð félagslegum bakgrunni þeirra.

Ég held að það sé alltaf hollt í umræðum um breytingar á fyrirliggjandi kerfum að gera sér í hugarlund hvernig við mundum smíða kerfin ef við værum hér og nú að byggja þau upp frá grunni. Ég efast um að einhverjum mundi finnast það skynsamleg útfærsla að koma upp öflugu fæðingarorlofskerfi til að sinna börnum fyrstu mánuðina, öflugu leikskólakerfi til að taka við þeim nokkuð stálpuðum en skilja svo viljandi eftir eyðu þar sem börn og foreldrar eru í lausu lofti og komin upp á greiðvikni vina og ættingja eða dagforeldrakerfið þarna á milli.

Þessi tillaga gengur út á að þróa þá hugsun lengra og skapa brú á milli þeirra kerfa sem samfélagið hefur þegar komið sér upp varðandi umönnun og fræðslu ungra barna. Ég vona því svo sannarlega að hún hljóti brautargengi hér á Alþingi og að sú nefnd sem lögð er til í þingsályktunartillögunni verði skipuð og komist sem allra fyrst á laggirnar. Leikskóli að loknu fæðingarorlofi er brýnt hagsmunamál barna og foreldra. Því fyrr sem hafist er handa við að gera áætlun um hvernig staðið skuli að því að gera það að veruleika því betra.