143. löggjafarþing — 6. fundur,  9. okt. 2013.

leikskóli að loknu fæðingarorlofi.

6. mál
[17:35]
Horfa

Flm. (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir góða umræðu og jákvæðar undirtektir við þessari tillögu. Það er afar mikilvægt að halda því til haga að tillagan fjallar í sjálfu sér ekki um stórpólitísk ágreiningsmál eins og til að mynda rekstrarform skóla, leikskóla o.s.frv., um foreldragreiðslur, heimgreiðslur o.s.frv., hún fjallar ekki um slík mál. Tillagan fjallar um að koma þessu samfélagslega viðfangsefni í farveg. Það er afar mikilvægt fyrir okkur öll, vegna þess að við spönnum allt hið pólitíska litróf, að átta okkur á því, að toga málið ekki í sundur á fyrri stigum, vegna þess að það er til nóg af núningsflötum í sjálfu sér og við þekkjum það í umræðunni árum og áratugum saman, heldur bara tryggja að þarna verði samráðsvettvangurinn til, að þetta samtal verði til. Það er ánægjulegt að hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra er í salnum því að þingsályktunartillagan felst einmitt í því að fela honum í samráði við aðra að skipa nefnd — og mér sýnist í umræðunni að menn séu almennt á því að það sé vel til fundið hjá Sambandi ísl. sveitarfélaga að leggja til að sambandið sitji í raun og veru jafnt við borðið og hæstv. ráðherra til að fjalla um þetta sameiginlega viðfangsefni fjölskyldnanna í landinu, ríkisins og sveitarfélaganna — til að skoða sérstaklega stöðu þessara fjölskyldna, þessara minnstu barna þar sem fæðingarorlofi sleppir og leikskólinn hefur ekki enn þá tekið við.

Þarna erum við líka að tala um mjög mikilvægan þátt í því er varðar félagslegt réttlæti og jöfnuð. Við erum að tala um jöfnuð í þágu barna óháð félagslegri stöðu og ekki síður óháð búsetu sem er afar mikilvægt og kom fram í máli þingmanna í umræðunni að það er í vaxandi mæli sá þáttur sem fjölskyldurnar horfa til þegar búseta er valin, þ.e. hver umbúnaðurinn er utan um barnið, bæði leikskólastigið en ekki síður og einnig möguleiki á tómstundastarfi, íþróttum, tónlistarnámi o.s.frv. fyrir barnið. Það er orðinn þáttur sem vegur jafnvel jafn þungt og spurningin um atvinnu og möguleika hvað það varðar. Sem betur fer eru börnin farin að vega sífellt þyngra í því hvernig samfélagið þróast en þessi tillaga er, þótt hún sé ekki sett fram undir því flaggi, hluti af því að við hér stjórnvöld, og þá bæði ríki og sveitarfélög, mótum heildræna barnastefnu fyrir samfélagið, að við sjáum hvernig við á Íslandi viljum búa að börnum. Mér fyndist af því sómi ef okkur tækist að gera það án þess, eins og ég sagði hér áðan, að draga hefðbundna núningsfleti fram sem aðalatriði í umræðunni af því að það er ekki það sem umræðan þarf í sjálfu sér að taka á.

Hér var aðeins talað um þann mikla styrk sem leikskólinn býr yfir, leikskólahugmyndafræðin, leikskólakennslufræðin, leikskólanálgunin sem er að læra í gegnum leik þar sem félagsþroski, sterkt málumhverfi og máluppeldi eru miðlæg í öllu skólastarfi. Ég hef stundum sagt, hafandi þá reynslu að hafa kennt á öllum skólastigum, að það mætti vera meira um leik á öðrum skólastigum en leikskólastiginu. Þess vegna finnst mér að jafnaði að frekar eigi að horfa til leikskólans sem fyrirmyndar þegar verið er að þróa skólastarf og leggja meiri áherslu á sveigjanleika og sköpun en kantaða mælikvarðanálgun í skólastarfi. Það er enda líka sá megintónn sem er í nýrri aðalnámskrá, að leggja meiri áherslu á sköpun og það er gríðarlega mikil áhersla í mörgum grunn- og framhaldsskólum á slíka nálgun.

Það var nefnt að fjölga fimm ára deildum við grunnskóla og einnig skólaskilin sem eru líka partur af því umræðuefni sem Samband ísl. sveitarfélaga hefur verið að fjalla um, skil milli leik- og grunnskóla og síðan milli grunn- og framhaldsskóla sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon reifaði ágætlega, með það að meginleiðarljósi að skilin þurfa eiginlega að verða sem minnst, þ.e. að þau séu sem mýkst, þetta séu ekki höktandi skil heldur miklu frekar þannig að eitt taki við af öðru á afslappaðan, náttúrulegan og eðlilegan máta þannig að smábarnastig grunnskólans séu líkari leikskólanum o.s.frv., eins og raunar þróunin hefur verið.

Virðulegur forseti. Ég vil enn og aftur þakka fyrir góða umræðu og vænti þess að málið fái góða umfjöllun í hv. allsherjar- og menntamálanefnd og fái jákvæða umfjöllun. Ég held að þetta sé gott mál til þess að við getum í anda þess að efla virðingu þingsins og jafnvel að freista þess að auka eitthvað álit alþýðumanna á stjórnmálamönnum og stjórnmálafólki, að þetta sé góður kandídat í að við sammælumst um að samþykkja það og hefja það samstarf sem Samband ísl. sveitarfélaga hefur tekið svo vel í á fyrri stigum málsins. Ég vænti þess að hæstv. menntamálaráðherra sé mér sammála um þá málsmeðferð og að við vinnum þetta í sátt og samlyndi í hv. allsherjar- og menntamálanefnd.