143. löggjafarþing — 6. fundur,  9. okt. 2013.

mótun stefnu í gjaldmiðilsmálum.

7. mál
[18:04]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mér er stórum létt vegna þess að þegar ég las þingsályktunartillögu Bjartrar framtíðar velti ég því fyrir mér hvort þeir teldu í reynd að það væru einhverjir aðrir raunhæfir möguleikar en þeir tveir sem við erum sammála um núna. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að menn hafa rætt ýmsa aðra kosti. Ég er honum og félögum hans algjörlega sammála um að það væri mjög þarft að ná góðri umræðu um gjaldmiðil framtíðarinnar, gjaldmiðilsstefnu Íslands. Ég tel að hún muni spretta hér á næstu missirum. Ég held einfaldlega að aðstæðurnar kalli á það.

Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að það sé eiginlega búið að leggja til hvílu aðra möguleika en þá tvo sem við erum sammála um að hafi verið niðurstaða í skýrslu Seðlabankans. Eins og hv. þingmaður man voru menn að ræða ýmsa aðra möguleika. Þeir eru reifaðir giska vel í skýrslu Seðlabankans. Þetta var niðurstaða hans.

Sá möguleiki sem mest var ræddur hér á sínum tíma sem var einhliða upptaka á kanadadollar, sem var reyndar líka úr þessum stól tekin upp í forminu tvíhliða upptaka kanadadollars af einum af núverandi hæstv. ráðherrum, er lagður til hliðar. Ég leyfði mér af nokkrum hroka í umræðum á sínum tíma í þingsal að segja að þær hugmyndir væru þær vitlausustu sem væru uppi í stöðunni. Það felast einfaldlega hættur í því að taka upp með einhliða hætti mynt lands sem við eigum sáralítil viðskipti við. Ef talan er rétt sem í mínum huga stendur minnir mig til dæmis varðandi kanadadollarann að viðskipti við Kanada séu 1% af utanríkisviðskiptum Íslands. Ég tel að sagan sýni að mjög hættulegt sé að fara þá leið.

Aðrir möguleikar hafa verið reifaðir eins og upptaka norsku krónunnar. Við vitum hvaða svör menn fengu af hálfu (Forseti hringir.) Norðmanna þegar sá möguleiki var settur upp.