143. löggjafarþing — 6. fundur,  9. okt. 2013.

mótun stefnu í gjaldmiðilsmálum.

7. mál
[18:27]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ja, svartsýni og ekki svartsýni. Ég ætla bara að leyfa öðrum að dæma um það hvort þetta sé kallað svartsýni eða bara kalt mat, eins og maður segir stundum. Stundum þarf að tala þannig til þess að hægt sé að hlýja því aðeins. Það er greinilega smámisskilningur á ferð hérna. Ég er ekki á móti tillögunni, alls ekki, heldur er ég meira að reyna að hefja umræður því að ég er sammála. Það væri frábært ef við gætum hafið þessa umræðu hérna og haft hana opna og hófstillta og góða og skemmtilega. Það má stóla á það að þeir þingmenn sem hafa þegar fastmótaðar hugmyndir haldi í þær, sérstaklega ef þeir eru algjörlega sannfærðir um þær. Ég verð að viðurkenna að ég er ekki 100% sannfærður um það hver framtíðarlausnin sé. Ég hallast að því að við þurfum evru, en ég sé ekki fram á að það sé að fara að gerast.

Nú vil ég ekki loka á þann möguleika, sérstaklega vegna þess að við eigum eftir að ræða til dæmis þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi viðræður við Evrópusambandið. Það er nokkuð sem ég styð heils hugar og mundi væntanlega greiða atkvæði í ljósi þess samnings sem væri á boðstólum.

Hv. þingmaður spyr um hvort hér sé ekki hægt að gera langtímastefnumörkun. Jú, jú, en til hversu langs tíma? Erum við að tala um tíu ár? Ég held ekki að við losnum við krónuna næstu tíu ár. 20 ár? Ég stórefast um það. Eftir það? Kannski, mögulega. Hvað sem því líður þurfum við að lifa með krónunni einhvern tíma í viðbót. Þá held ég að við þurfum að fara að íhuga hvernig við komumst í gegnum næstu örfáu áratugina með krónuna því að hún hefur klárlega þessa galla. Ég deili gagnrýninni algjörlega með öllum sem hafa tjáð sig hér um krónuna. Hún er stórgölluð, mjög erfitt tól. Ég velti fyrir mér hvernig við eigum að koma okkur í gegnum næstu áratugi, vonandi örfáa.