143. löggjafarþing — 6. fundur,  9. okt. 2013.

mótun stefnu í gjaldmiðilsmálum.

7. mál
[18:33]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég kem nú aðallega hingað upp sökum þess að mér finnst í sjálfu sér virðingarvert og þarft að hreyfa þeim málum sem hér er gert af hálfu þingmanna Bjartrar framtíðar. Það er rétt hjá málshefjanda að á köflum hefur verið erfitt að fá fram yfirvegaða, málefnalega umræðu um þetta mál sem slíkt, um framtíðarfyrirkomulag okkar varðandi gjaldmiðils- og peningastefnumál, auðvitað vegna þess að sú umræða vill verða ákaflega nátengd öðru stóru pólitísku máli sem er spurning um aðild Íslands að Evrópusambandinu eða ekki. Og það tjáir ekki annað en að ræða þetta sem sín hvora hliðina á sama peningnum; mögulega upptöku evru og ósköp einfaldlega aðildarspurninguna sjálfa.

Eftir hrunið varð mönnum ljóst að þetta væri eitt af því sem mundi banka á dyrnar fyrr eða síðar, og hefur nú svo sem lengi gert. En ekki síst í ljósi reynslunnar og þess sem hér gerðist þyrftu menn samhliða björgunarstarfinu og því að koma okkur aftur á lappirnar að fara að horfa fram á veginn og auðvitað er það alltaf kostur að vita hvert menn ætla að stefna í málum af þessu tagi.

Ég er í þeim hópi sem er sammála því að ekki sé gott að velta þessu lengi á undan sér úr þessu, nema einhver sæmilega skýr stefna liggi fyrir, að við skulum segja, til meðallangs tíma að minnsta kosti. Nú er það að vísu þannig og það eru, held ég, flestir sammála um, að krónan verður gjaldmiðill okkar til allmargra ára og má segja að það sé viss kostur í stöðunni að við vitum í aðalatriðum hvað við þurfum að gera. Það er nefnilega þannig að það er það sama sem við þurfum að gera hvort sem krónan verður hér lengur eða skemur gjaldmiðill okkar eða við tökum upp evru innan átta til tíu ára, sem kannski væri raunhæft í þeim efnum; í raun og veru þarf að gera sömu hlutina á Íslandi. Það þarf að koma tilteknum málum í lag, óháð því í sjálfu sér hver verður okkar framtíðargjaldmiðill.

Við stjórn efnahagsmála hafa okkur Íslendingum verið ákaflega mislagðar hendur og þá kemur að vandamálinu: Hvort kemur á undan eggið eða hænan? Hver er meginorsakavaldur eða frumorsakavaldur vandans? Eru það misvitrar ákvarðanir stjórnmálamanna og þeirra sem hafa farið með hagstjórn eða er það krónan sjálf sem að einhverju leyti er uppruni ógæfunnar, frumorsakavaldur vandans? En það verður, held ég, ekki fram hjá því litið að sú vegferð sem við lentum inn á með krónuna, í glímu við krónískan verðbólguvanda og óstöðugleika, setti smátt og smátt krónuna hér og hagkerfið og hagstjórnina í umbúnað sem ekki er endilega rétt að kenna krónunni um sem slíkri. Þegar menn til mótvægis við verðbólgu grípa til verðtryggingar og hún verður síðan að umfangsmiklu fyrirbæri í hagkerfinu, sem aftur þýðir að ýmis venjuleg stýritæki virka ekki hér eins og þau ættu að geta gert, þá getum við í sjálfu sér ekki kennt gjaldmiðlinum um það sem slíkum þegar þangað er komið, þ.e. að meðulin sem menn glímdu við, tóku inn við verkjunum, urðu að sjálfstæðu og verra vandamáli en kvillarnir í byrjun.

Varðandi tillöguna hljóðar hún upp á að móta stefnu í gjaldmiðilsmálum en í raun svífur yfir vötnunum að það sem þurfi sé ákvörðun og kannski erum við að tala meira um ferli sem leiði okkur að því að taka þá þessa ákvörðun. Og getum við það nema þjóðin svari samtímis og í leiðinni spurningunni um aðild eða ekki aðild að Evrópusambandinu? Ég held ekki.

Gjaldmiðilsstefna sem mótuð væri í óvissu um það hver yrði niðurstaða þjóðarinnar ef kæmi til kosninga um aðild að Evrópusambandinu hangir í sjálfu sér í lausu lofti og ég held að það væri ákaflega óhyggilegt og óráðlegt — og ég verð aldrei með í þeirri vegferð — að komast fyrst að þeirri niðurstöðu að við verðum að taka upp evru af því að krónan gangi ekki og taka svo bara áhættuna af því að þjóðin verði okkur sammála og samþykki inngöngu í Evrópusambandið. Þannig að ég vil bara gera það alveg ljóst og þannig stóð ég að málum á öllu síðasta kjörtímabili með þessi mál í mínum höndum mestan part sem fjármálaráðherra og síðan efnahags- og viðskiptaráðherra að við yrðum að stilla þessu upp sem tveimur valkostum.

Seðlabankinn greinir það og kemst í aðalatriðum að þeirri niðurstöðu að tvær meginleiðir komi til greina en báðar þeirra eru opnar á vissan hátt, þ.e. upptaka evru í þeim skilningi að við vitum ekki nákvæmlega hvers konar evra það verður og í hvaða umbúnaði og hvað fylgir. Hvernig verður umbúnaður Evrópusambandsins orðinn utan um sitt efnahagssamstarf, hversu langt verður þá þróunin gengin í átt til sambandsríkis með mikla miðstýringu á bankamálum, fjármálamarkaði og jafnvel einhverjar reglur sem menn verða að undirgangast í ríkisfjármálum? Þannig að evran er ekki föst stærð, óumbreytanleg inn í framtíðina eins og ég nálgast það og sprungurnar sem þar glitti í eru náttúrlega til staðar. Auðvitað vonum við öll að úr þessu sé að rætast og heldur horfir nú skár í Evrópu, en svo mikið veit ég að á tímabili var komin í gang vinna í innsta hring Evrópusambandsins, og meðal þeirra evruríkja sem eru með þrefalt A í lánshæfismat, að þeir mundu verja stöðu sína og sigla sjálfir sinn sjó frekar en að fara niður með restinni ef til þess kæmi.

Mundum við ná í þann flokk eða yrðum við í ytri hringnum ef eitthvað af þessu tagi ætti eftir að gerast eða gæti gerst? Það er stór spurning. Þannig að evran er ekki föst stærð og þaðan af síður er það þannig að ákvörðunin um krónu eða ekki krónu sé eitthvert fast statískt fyrirbæri, krónan eins og hún var í fyrri umbúnaði eða núverandi stöðu, að sjálfsögðu ekki. Þegar kæmi að þeirri niðurstöðu, ef það yrði ofan á að við hefðum sjálfstæðan gjaldmiðil, eru margar leiðir færar og margs konar umbúnaður hugsanlegur utan um þann gjaldmiðil. Það er ekki nema að litlu leyti í hinu viðamikla verki Seðlabankans farið yfir alla þá möguleika sem þar koma til greina.

Til dæmis er ekkert mikið fjallað um mörg minni hagkerfin í Asíu og þær margbreytilegu leiðir sem menn hafa farið þar, ekki síst eftir Asíukreppuna, til að búa áfram við sjálfstæðan gjaldmiðil en horfast í augu við dýrkeypta reynslu og byggja upp varnir gegn því að svipaðir hlutir endurtaki sig. Meðal annars með tengingum við stóru myntirnar á svæðinu og ýmiss konar samsetningar af körfum og vikmörkum og Guð má vita hvað.

Reynslan af krónunni — eiga menn að segja að tilrauninni um sjálfstæðan gjaldmiðil, alla vegana á floti, sé lokið og niðurstaðan sé sú að hún hafi mistekist og þar með sé það bara dómur sögunnar að þetta sé ekki hægt? Ég deili ekki þeirri skoðun. Ég tel að mistök fortíðar geti ekki ein og sér dugað okkur sem röksemdir fyrir því að ekki væri hægt að standa betur að málum.

Ef við tökum tímabilið frá því um aldamótin og sérstaklega árin 2003–2007 þá sætti ég mig ekki við það að við lítum svo á að vegna þess að menn gerðu nánast allt vitlaust sem hægt var að gera vitlaust í hagstjórn á þeim tíma — það er bara þannig, lesi menn Rannsóknarskýrslu Alþingis — að þess vegna sé þetta ekki hægt. Ég held að staðan um aldamótin og fyrstu árin þar á eftir gæti þvert á móti verið röksemd fyrir því að ef menn hefðu staðið rétt að málum í framhaldinu þá hefði þetta getað farið allt öðruvísi og miklu betur. Eftir á að hyggja, og það er auðvelt að vera vitur eftir á, þá held ég að fleyting krónunnar á sínum tíma hafi verið glannaskapur. Og hvað eru menn að tala um í dag? Jú, við mundum væntanlega aldrei láta okkur detta í hug að endurtaka þá tilraun nema að hafa áður leitt í lög ýmsar öryggisreglur og gengið frá því að áhætta af því tagi sem mönnum leiðst að taka þá væri ekki til staðar.

Nefna má að aðilar með allar sínar tekjur í innlendri mynt höfðu opnar heimildir til að skuldsetja sig upp í rjáfur í erlendum gjaldmiðlum og taka bullandi gjaldeyrisáhættu, jafnvel sveitarfélög eða hverjir það nú voru, sem er auðvitað galskapur. Að sjálfsögðu fylgja því ókostir að hafa litla mynt og það mun alltaf fela í sér einhvern fórnarkostnað en fyrst og fremst (Forseti hringir.) er augljóst mál að við höfum ekki efni á mistökum af því tagi sem við höfum gert í fortíðinni (Forseti hringir.) og agi verður að vera í hernum.