143. löggjafarþing — 6. fundur,  9. okt. 2013.

mótun stefnu í gjaldmiðilsmálum.

7. mál
[18:50]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það má að sjálfsögðu líta á það í nefnd. Það er líka hægt að fara bil beggja. Ég held að að mörgu leyti sé eðlilegt að ætla framkvæmdarvaldinu að hafa einhverja forustu í þessum efnum. Við bíðum dálítið eftir því að sjá á spil hæstv. ríkisstjórnar, ekki bara í þessu tilviki heldur mörgum öðrum. Ég hef leyft mér að setja sem millifyrirsögn í blaðagrein nýlega: „Hefur þessi ríkisstjórn efnahagsstefnu?“ Reyndar spurði ég þar líka um atvinnustefnu. Það gæti líka verið þannig að ríkisstjórnin mundi styðjast við einhvern þverpólitískan hóp sem væri með í verkefninu. Það er hægt að fara ýmsar leiðir í því.

Það sem mig langar að leggja áherslu á og hefði eiginlega átt að vera í ræðu minni en ekki í andsvari er að það er að mörgu að hyggja í þessu máli. Ég hef hallast að því æ meira að það mikilvægasta sé undirstaðan. Gjaldmiðlinum hafi oft verið kennt of mikið um að vera frumorsakavaldur vandans en menn hafi of lítið horft á veikleikana sem voru í grunninum, í undirstöðunni, og sjálfri hagstjórninni. Því það mun aldrei neitt breyta því. Enginn heimsins gjaldmiðill mun breyta þeirri sígildu staðreynd að ef þú eyðir meiru en þú aflar endar það illa. Það skiptir ekki máli í hvaða mynt maður gerir það. Skal ég þá ekki taka Grikkland sem dæmi. Tökum bara Kýpur og Írland sem bæði höfðu evru en lentu í miklum vandamálum vegna þess að veikleikar voru í undirstöðunni og menn leyfðu tilteknum hlutum að ganga of langt.

Alþjóðaumhverfið hefur þróast á tímum nýfrjálshyggjunnar og nýkapítalismans í þá veru að það hefur gert erfiðara fyrir einstök lönd að verja sínar eigin myntir. Það er vissulega þannig. Spákaupmennska og hinir tryllingslegu fjármagnsflutningar, stöðutaka, áhlaup á gjaldmiðla — þetta eru síðari tíma fyrirbæri sem hafa gert í raun og veru enn þá erfiðara að gera það sem í grunninn (Forseti hringir.) var kannski nógu erfitt fyrir; að vera lítið land með sjálfstæðan gjaldmiðil og sjálfstæða efnahagsstefnu.