143. löggjafarþing — 6. fundur,  9. okt. 2013.

mótun stefnu í gjaldmiðilsmálum.

7. mál
[18:55]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég held við þurfum meira en andsvör og tveggja mínútna ræðutíma ef við förum í stóru málin eins og hvað orsakar verðbólguna og af hverju hún hefur verið svona þrálát og erfið viðureignar hjá okkur. Auðvitað voru það á sínum tíma hinar miklu sveiflur í okkar unga og vaxandi hagkerfi sem tengdust náttúrunni og öðru slíku sem gerðu hagstjórnina erfiða og menn gripu til stórfelldra gengisfellinga og slíkra hluta af ástæðum sem við þekkjum og liggja aftur í sögunni. Svo þegar menn voru orðnir leiðir á verðbólgunni tóku þeir upp verðtryggingu og hún varð síðan að stórum þætti eftir því sem á leið. Í grunninn aftengir hún eitt element sem þarf að vera til staðar upp að vissu marki, það er það að á vissum tímum þarf að rýra verðgildi peninganna. Það gerist í hagkerfum þar sem ekki er verðtrygging eða a.m.k. ekki umfangsmikil verðtrygging, dæmi er Bretland undanfarið ár. Þar hefur verið verðbólga sem hefur bitið dálítið í í Bretlandi enda hafa Bretar verið í miklum erfiðleikum. Hvað hefur gerst? Jú, auðvitað hefur verðgildi fjármuna rýrnað í Bretlandi við þær aðstæður.

Hér hjá okkur er stór hluti hagkerfisins bara tekinn til hliðar í þessum efnum. Það er ekki aðeins þannig að verðgildið haldist heldur oftryggir verðtryggingin í raun fjármuni. Þetta skekkir margt sem við er að eiga í þessu efni. Ég held að þetta sé sambland af svo mörgu á Íslandi, það er erfitt að tilgreina eitthvað eitt.

Ég held að menn horfi stundum fram hjá því hvað Ísland er ungt sem efnahagslega þróað ríki með einhvern umtalsverðan hagvöxt og sæmilega velsæld. Gleymum því ekki að við komum úr sárustu fátækt Evrópu fyrir rúmum 100 árum. Það er (Forseti hringir.) eðlilega ungæðisbragur á ýmsu hjá okkur þegar hlutirnir eru rétt að byggjast upp. (Forseti hringir.)