143. löggjafarþing — 6. fundur,  9. okt. 2013.

mótun stefnu í gjaldmiðilsmálum.

7. mál
[18:57]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er hjartanlega sammála, sérstaklega niðurlaginu. Maður gleymir því oft hvað við erum ofboðslega ung þegar kemur að fjármálum almennt. Við hófum fyrsta hlutabréfamarkaðinn á Íslandi 1985, 1986 eða um það bil. Við höfum einmitt verið mjög ungæðisleg í seinni tíð eins og menn vita núna eftir að varað var við því margsinnis í mörg ár af hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni.

Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður telji verðbólguna vera eitthvað sem við getum einhvern veginn haft hemil á, þá væntanlega með vandaðri hagstjórn, eða hvort hún sé eitthvað sem við þurfum að læra að lifa við og búa til einhvers konar kerfi þannig að efnahagurinn allur ráði betur við hana. Þetta er það sem ég velti svolítið fyrir mér vegna þess að verðbólgan virðist hafa verið þrálát í svo langan tíma og undir ýmsum kerfum, hægri stjórn, vinstri stjórn, fljótandi gengi, ekki fljótandi gengi, hlutabréfamarkaði eða ekki. Undir öllum þessum kringumstæðum virðist hún alltaf hafa verið til staðar. Hún er nokkurs konar draugur í bakgrunninum.

Ég geri mér grein fyrir og ber virðingu fyrir því að það er meira en andsvarsvirði af tíma sem þarf til þess að útskýra þetta og ræða. Alla vega er spurningin í grunninn sú hvort þetta sé eitthvað sem við þurfum að lifa með eða eitthvað sem við getum á endanum lagfært og minnkað niður í kannski 2–3%, eitthvað aðeins viðráðanlegra en þau 5–7% sem maður á víst að venjast.