143. löggjafarþing — 6. fundur,  9. okt. 2013.

mótun stefnu í gjaldmiðilsmálum.

7. mál
[18:59]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Nú er það svo magnað með verðbólguna að hún er eins og fleiri fyrirbæri góð í hófi. Það er nefnilega svo undarlegt með það. Það er ekki þannig að við viljum endilega að verðbólgan sé núll og þaðan af síður viljum við verðhjöðnun. Það er að mörgu leyti heilbrigt að einhver verðbreyting sé með vexti í hagkerfinu og öðru slíku, en við viljum alls ekki missa hana heldur úr böndunum. Þetta er eins og með fleiri fyrirbæri mannlegs lífs, upp að vissu marki geta þau verið ágæt, jafnvel nauðsynleg en stórhættuleg ef þau fara úr böndunum ef um of mikið er að ræða.

Hvaða ráð eru við þessu? Ég veit það ekki. Ég hef stundum leyft mér að segja að við þurfum bara að verða svolítið nískari og læra að hugsa eins og Norðmenn. Ef maður ber okkur saman sér maður auðvitað að Norðmönnum hefur gengið, ég leyfi mér að fullyrða það, það er alla vega mín skoðun, best af norrænu þjóðunum að halda stöðugleika og verja t.d. sinn gjaldmiðil. Menn geta sagt: Þeir eiga olíuna. — Já, já, en þetta kom ekki bara til með henni. Norski seðlabankinn hefur til dæmis um áratugaskeið og aftur fyrir olíutímann verið firnasterkur. Þeir hafa náð að standa af sér atburði sem aðrar Norðurlandaþjóðir fóru miklu verr út úr, Svíar, Finnar og þess vegna Danir, m.a. vegna þess að Norðmenn ákváðu bara af sínum járnaga: Við ætlum að vera sparsamir, fyrirhyggjusamir, eiga fyrir því sem við eyðum og við ætlum að eiga góðan forða í okkar sameiginlega banka sem við getum gripið til og notað ef á þarf að halda og varið okkur fyrir utanaðkomandi sveiflum og öðru slíku með honum.

Þess vegna er það þannig að í okkar tilviki er alveg ljóst að það mun alltaf fylgja því tiltekinn fórnarkostnaður að vera með eigin gjaldmiðil. Við verðum þá að vera tilbúin til þess að hafa það sem til þarf, aga í ríkisfjármálum, jákvæðan viðskiptajöfnuð (Forseti hringir.) og væntanlega í fyllingu tímans þyrftum við sterkan seðlabanka með öflugan (Forseti hringir.) gjaldeyrisvaraforða.