143. löggjafarþing — 7. fundur,  10. okt. 2013.

stefna ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum.

[10:43]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Það er vont ef grein mín hefur valdið þingmanninum vonbrigðum af því að ekki skyldi talað um loftslagsmál í henni. Það er hægt að tala um ýmislegt þegar kemur að norðurslóðum og telja ekki allt til sem máli skiptir.

Þingmaðurinn spyr um forgangsröðun eða áhuga þess sem hér stendur á norðurslóðum og þá loftslagsbreytingum. Ég deili að sjálfsögðu og ríkisstjórnin öll áhyggjum með þeim sem þær hafa og skynja breytingarnar sem eru að verða þar, sem þýða að ísinn bráðnar og siglingaleiðir opnast. Nýverið sigldi skip frá Alaska ef ég man rétt eða Bandaríkjunum til Rússlands líklega með því að fara nýja leið. Það er mikið að gerast þarna og að sjálfsögðu þurfum við að huga að dýralífi þar og öðru.

Það sem Íslendingar hafa hins vegar lagt áherslu á og munu leggja áherslu á þegar kemur að loftslagsbreytingum er ekki síst málefni hafsins því við höfum að sjálfsögðu miklar áhyggjur af því hvernig hafið kemur út úr þessum breytingum. Við erum með það á okkar borði og stefnuskrá í rauninni að vekja athygli heimsbyggðarinnar og vekja athygli annarra norðurskautsríkja á því að við getum ekki talað um norðurslóðamál eða sinnt þeim án þess að horfa á hafið og þá um leið hvaða áhrif loftslagsbreytingar hafa á hlýnun hafs, lífríkið og þess háttar.

Spurt er sérstaklega um stefnu okkar í loftslagsmálum. Stefna okkar í loftslagsmálum er að sjálfsögðu að leggja það sem við getum til þess málaflokks til að minnka breytingar á náttúrunni, til að minnka útblástur og allt það sem við erum held ég öll sammála um að við þurfum að taka að okkur. (Forseti hringir.) En við erum kannski ekki alveg sammála um hvaða leiðir á að fara í því.