143. löggjafarþing — 7. fundur,  10. okt. 2013.

fæðingarorlofssjóður.

[10:52]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Mér finnst eiginlega ekki hægt að miða við hvernig Fæðingarorlofssjóður hefur verið. Það var sótt mjög að Fæðingarorlofssjóði í eftirleik hrunsins. Við hljótum að þurfa að tala um Fæðingarorlofssjóð eins og við viljum hafa hann og það liggur alveg fyrir að þakið á hámarksgreiðslum úr Fæðingarorlofssjóði þarf að vera miklum mun hærra til þess að Fæðingarorlofssjóður geti til dæmis sinnt því hlutverki sínu að stuðla að jafnrétti á vinnumarkaði. Við samþykktum í lok síðasta kjörtímabils að lengja fæðingarorlofið. Ég held að það hafi verið hér víðtækur samhljómur í því máli og það er markmið sem við hljótum að setja okkur.

Ég hef alltaf óskað eftir því þegar við tölum um Fæðingarorlofssjóð að það verði einfaldlega efnt til samráðs við atvinnulífið um það hver hlutur Fæðingarorlofssjóðs eigi að vera í launatengdu gjöldunum, í tryggingagjaldinu. Hér er tekin einhliða ákvörðun af hæstv. fjármálaráðherra eða í fjármálaráðuneytinu, með fjárlögum, að minnka hlutdeild Fæðingarorlofssjóðs í tryggingagjaldinu. Er það gert í samráði við atvinnulífið? (Forseti hringir.) Væri ekki full ástæða til þess að fara í þetta samráð og ákveða til (Forseti hringir.) langs tíma hvert við viljum að hlutfall Fæðingarorlofssjóðs verði?