143. löggjafarþing — 7. fundur,  10. okt. 2013.

rekstur Íbúðalánasjóðs.

[10:59]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Það er ljóst að vandi Íbúðalánasjóðs er fortíðarvandi og áhætta sem verður að leysa óháð framtíðarskipan húsnæðislána. Það er mikilvægt að ráðherra geri sem fyrst grein fyrir því hvernig á að taka á þessari uppsöfnuðu áhættu þannig að þingið sé upplýst um hvert markmiðið sé og geti með því metið sjálfstætt hvort viðbrögðin séu viðunandi.

Þetta er sérstaklega mikilvægt vegna meðal annars frumvarps ráðherra um afnám stimpilgjalda og væntanlegrar skuldaleiðréttingar verðtryggðra lána. Hvort tveggja getur leitt til, ef ekki er rétt haldið á málum, uppgreiðslu hjá Íbúðalánasjóði og gríðarlegs taps fyrir ríkissjóð. Í þessu sambandi minni ég á það sem hæstv. ráðherra minnti á áðan, að ábyrgðir ríkisins vegna Íbúðalánasjóðs eru um 940 milljarðar kr. sem eru nær tvöföld fjárlög íslenska ríkisins. Það er því mikilvægt að ráðherra geri okkur sem fyrst grein fyrir hvernig hann ætlar að verja (Forseti hringir.) sjóðinn.