143. löggjafarþing — 7. fundur,  10. okt. 2013.

starfsmannastefna Landspítalans.

[11:03]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda þessa fyrirspurn. Stutta svarið við henni er: Nei, ég veit það ekki. Ég er ekki í færum til þess að svara því hvort nýr forstjóri sé á þeim buxunum í dag að búa Landspítalanum nýja starfsmannastefnu. Ég veit þó því að það hefur verið rætt að Páll Matthíasson mun gera breytingar á skipulagi starfsemi spítalans og væntanlega þá á fleiri þáttum en eingöngu því sem lýtur að framkvæmd heilbrigðisþjónustunnar. Ég geri ráð fyrir að af því starfi muni leiða einhverjar breytingar sem snerta starfsmannastefnu Landspítalans en að öðru leyti get ég ekki og hef ekki upplýsingar um það hver áform hans eru akkúrat á þessu augnabliki.

Meginatriðið sem að forstjóra Landspítalans snýr í dag er að gera áætlanir fyrir starfsemi heilbrigðisþjónustunnar á næsta ári á grunni þeirra tillagna sem eru í fjárlagafrumvarpi þessa árs. Sömuleiðis er mikið verkefni fram undan sem lýtur að því sem kom fram í umræðunni hér í gær og ég hafði ekki tíma til að svara en var örlítið minnst á og nefnt K-bygging, þ.e. tillögur sem lúta að því að búa starfsmannahaldið og aðra starfsemi á spítalanum undir breytingar varðandi húsakost spítalans.

Stutta svarið við fyrirspurninni er: Ég hef ekki hugmynd um hvernig því vindur fram en geri ráð fyrir því að nýr forstjóri Landspítalans þurfi að taka til hendinni í þessu máli. Það er ekki forgangsverkefni í mínum huga.