143. löggjafarþing — 7. fundur,  10. okt. 2013.

lögfesting Norðurlandasamnings um almannatryggingar.

22. mál
[11:05]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um lögfestingu Norðurlandasamnings um almannatryggingar sem var undirritaður í Bergen þann 12. júní 2012. Samkvæmt frumvarpinu er lagt til að samningurinn öðlist lagagildi hér á landi þegar hann tekur gildi. Samkvæmt ákvæðum samningsins er gert ráð fyrir að hann öðlist gildi fyrsta dag þriðja mánaðar frá því að allar norrænu ríkisstjórnirnar hafa tilkynnt dönsku ríkisstjórninni að þær hafi staðfest samninginn. Við gildistökuna fellur Norðurlandasamningur um sama efni frá 18. ágúst 2003 úr gildi, sem og lög nr. 66/2004, um lögfestingu þess samnings.

Frumvarp sama efnis var lagt fram á 141. löggjafarþingi en hlaut þá ekki afgreiðslu. Á því þingi samþykkti Alþingi hins vegar þingsályktun um heimild til að staðfesta samninginn fyrir Íslands hönd.

Samstarf Norðurlandanna á sviði almannatrygginga á sér langa sögu en samningar um félagslegt öryggi hafa verið í gildi allt frá árinu 1955. Árið 1994 tók Norðurlandasamstarf á þessu sviði nokkrum breytingum. Þá gekk í gildi samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið en almannatryggingareglugerðir þess samnings gilda um norræna ríkisborgara sem starfa eða dveljast í öðru norrænu landi.

Norðurlandasamningurinn frá 1992 tók því aðallega til einstaklinga sem féllu ekki undir almannatryggingareglur samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Í Norðurlandasamningnum voru einnig sérstakar norrænar reglur á sviði almannatrygginga sem veittu þeim sem fóru á milli Norðurlandanna ríkari rétt en samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið og náði til allra einstaklinga sem báðir samningarnir tóku til.

Með samningnum frá 2003 var samstarf Norðurlandanna á sviði almannatrygginga endurskoðað á ný og lagað að þeirri þróun sem orðið hafði á almannatryggingalöggjöf norrænu ríkjanna frá 1992 og á almannatryggingareglum Evrópusambandsins er felldar höfðu verið undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Samningurinn frá 2003 byggðist að mestu leyti á sama grunni og samningurinn frá 1992.

Virðulegi forseti. Árið 2008 þótti aftur tímabært að endurskoða Norðurlandasamninginn um almannatryggingar og laga samstarf Norðurlandanna að þeirri þróun sem orðið hafði á reglum Evrópusambandsins um almannatryggingar sem gilda á Evrópska efnahagssvæðinu og á löggjöf norrænu ríkjanna um almannatryggingar frá árinu 2003.

Þá lá fyrir að ný Evrópureglugerð um samræmingu almannatryggingakerfa mundi fljótlega leysa af hólmi gildandi reglugerð um sama efni innan Evrópusambandsins og í undirbúningi var að fella hana undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Var sérstökum starfshópi því falið að semja tillögu að nýjum Norðurlandasamningi um almannatryggingar. Eftir viðræður milli ríkjanna lágu lokadrög fyrir vorið 2011 og nýr samningur um almannatryggingar var síðan undirritaður af öllum norrænu ráðherrunum í júní 2012.

Er þetta frumvarp því liður í því að íslensk stjórnvöld stuðli að góðri framkvæmd samningsins en venja hefur verið að veita Norðurlandasamningum á þessu sviði lagagildi hér á landi.

Samningurinn byggir þannig einnig að mestu leyti á gildandi Norðurlandasamningi frá 2003 en gerðar hafa verið ákveðnar breytingar vegna þeirrar þróunar sem hefur orðið á sviði almannatrygginga innan Evrópuréttarins sem og löggjöf einstakra Norðurlandaþjóða. Samningurinn byggist þannig á meginreglu nýju Evrópureglugerðarinnar nr. 883/2004, um samræmingu almannatryggingakerfa milli ríkjanna, sem gildir einnig innan Evrópska efnahagssvæðisins.

Norðurlandasamningurinn kemur til fyllingar þessari reglugerð og veitir í vissum tilvikum enn ríkari réttindi til handa einstaklingum sem flytjast milli norrænu landanna.

Rétt er þó að minna á að samkvæmt samningi um Evrópska efnahagssvæðið geta ríkisborgarar EES-ríkis notið réttinda samkvæmt Evrópureglugerðinni við för milli ríkjanna en sú reglugerð tekur ekki til ríkisborgara í ríkjum sem eru utan Evrópska efnahagssvæðisins.

Milli Evrópusambandsríkjanna ríkir sérstök reglugerð um réttindi þeirra einstaklinga en hún er ekki hluti samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Þannig er Norðurlandasamningurinn áfram mikilvægur fyrir þessa einstaklinga þegar þeir fara á milli Norðurlandanna. Samningurinn er einnig mikilvægur fyrir Færeyinga og Grænlendinga þar sem Færeyjar og Grænland eru ekki aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu en geta gerst aðilar að Norðurlandasamningnum eins og hingað til.

Eins og ég sagði áðan veitir þessi samningur einstaklingum í vissum tilvikum ríkari rétt en Evrópureglugerðin gerir. Hér má nefna sem dæmi ákvæði um greiðslu kostnaðar við heimferð. Samkvæmt því stendur dvalarland straum af þeim aukakostnaði við heimferð einstaklings sem veikist eða slasast meðan á dvöl stendur í öðru norrænu landi sem til fellur þar ef heimferðin verður dýrari en til stóð vegna veikindanna, t.d. vegna aukakostnaðar við sjúkrabörur. Enn fremur eru í samningnum nokkur ný og breytt ákvæði frá fyrri samningi. Hér vil ég nefna sérstaklega að svokölluð fimm ára reglu sem er í samningnum í dag verður áfram í gildi en hún mun framvegis einnig taka til sjálfstætt starfandi einstaklinga innan atvinnuleysistryggingakerfisins og er það nýmæli. Þessi svokallaða fimm ára regla kveður á um undanþágu frá kröfum um tryggingar eða starfstímabil hafi umsækjandi um bætur áður fallið undir viðkomandi löggjöf um atvinnuleysisbætur eða fengið atvinnuleysisbætur í landinu þar sem sótt er um atvinnuleysisbætur síðustu fimm ár.

Þá er hugtakið búseta skýrt ítarlegar en áður hefur verið gert og kveðið er á um að komi upp ágreiningur milli norrænu ríkjanna um það hvaða löggjöf skuli beita gagnvart einstaklingi þannig að þegar ákvæði innlendra laga eru ekki fullnægjandi í þessu skyni skuli litið svo á að einstaklingur sé búsettur þar sem hann er skráður í þjóðskrá leiði sérstakar ástæður ekki til annars.

Ég vil einnig nefna að í samningnum er lögð áhersla á að hlutaðeigandi yfirvöld skuli veita gagnkvæma aðstoð í einstaka máli og að leysa skuli úr málum einstaklinga þeim til hagsbóta eins og framast er unnt.

Að lokum skal þess getið að einnig er í samningnum nýtt ákvæði um samstarf þegar um er að ræða starfstengda endurhæfingu einstaklinga sem tryggðir eru samkvæmt löggjöf eins norræns ríkis en búseta er í öðru norrænu ríki. Hlutaðeigandi stofnanir í þessum ríkjum skulu vinna saman að því að veita einstaklingum aðstoð og gera ráðstafanir til að auka möguleika þeirra á að hefja störf að nýju. Hefur slíkt ekki verið gert áður með sama hætti í eldri samningum. Einstaklingur í þessari stöðu skal eiga rétt á starfstengdri endurhæfingu í búseturíki sínu að frumkvæði stofnunar í tryggingalandi hans og að höfðu samráði milli stofnananna. Endurhæfingin skal veitt samkvæmt löggjöf og skilyrðum í búseturíki viðkomandi en ríkið þar sem hann telst tryggður í almannatryggingum ákveður hvenær starfstengdri endurhæfingu telst lokið og hvað taki þá við.

Eins og hér hefur verið rakið er því talið að fyrirhuguð lagasetning og Norðurlandasamningurinn hafi almennt jákvæð áhrif fyrir þá sem falla undir íslenska löggjöf á sviði almannatrygginga og fara á milli norrænu ríkjanna. Sömu reglur munu gilda óháð ríkisborgararétti auk þess sem ákvæði samningsins eru til fyllingar Evrópureglugerð um sama efni og veita í vissum tilvikum ríkari réttindi.

Norðurlandasamningurinn er því mikilvæg viðbót við almannatryggingareglur EES-samningsins og mikilvægt er að tryggja öllum íbúum Norðurlandanna lögbundin réttindi ef þeir fara á milli landa.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. velferðarnefndar til meðferðar.