143. löggjafarþing — 7. fundur,  10. okt. 2013.

lögfesting Norðurlandasamnings um almannatryggingar.

22. mál
[11:15]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og ég veit að hún getur ekki svarað öllum spurningum varðandi áhrif einstakra atriða þessa samnings. Í raun getum við ekki breytt samningnum, við erum að lögfesta hann og höfum auðvitað engin efni til að breyta því sem í honum stendur. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra í framhaldinu hvort það sé ekki réttur skilningur hjá mér að það sé þá þeim mun mikilvægara í þeim umsögnum sem við fáum að passa upp á þær ábendingar um landamærahindranir sem augljóslega þarf að vinna með í framhaldinu. Ég vildi heyra á hæstv. ráðherra hvort þetta væri ekki réttur skilningur og hvort ekki yrði greið leið milli nefndar og ráðuneytis varðandi það að koma í farveg þeim ábendingum sem við teljum knýjandi að bregðast við með einhverjum hætti.