143. löggjafarþing — 7. fundur,  10. okt. 2013.

bráðaaðgerðir til að efla leigumarkað á Íslandi.

5. mál
[11:40]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst vil ég þakka hæstv. félagsmálaráðherra fyrir að koma hingað og taka þátt í umræðunni um þá þingsályktunartillögu sem Samfylkingin hefur flutt um bráðaaðgerðir til að efla leigumarkað á Íslandi, svo og jákvæðar undirtektir hennar við tillögunni eins og kom fram í lok ræðu hæstv. ráðherra þar sem hún þakkar fyrir hana og leggur til að hún fari inn í þá vinnu sem er í gangi um húsnæðiskerfið.

Í mínu stutta andsvari langar mig til að spyrja hæstv. félagsmálaráðherra út í það sem hér er fjallað um í 4. tölulið, þ.e. Íbúðalánasjóð sem hefur eignast mikinn fjölda íbúða á undanförnum árum. Sett hefur verið á fót leigufélag sem á um sjötta hundrað valinna eigna á vegum sjóðsins.

Fyrri spurning mín er hvernig þetta leigufélag „funkerar“ og hvað sé búið að leigja mikið út og hvernig það gangi.

Hitt atriðið sem mig langar að spyrja út í er sá mikli fjöldi íbúða sem Íbúðalánasjóður á og ætlar að selja. Eins og kemur fram í greinargerð okkar er mikil gagnrýni út um allt land á það hve hægt gengur hjá Íbúðalánasjóði að setja íbúðir í sölu. Ég mun koma með dæmi um það hér á eftir í ræðu. Það var til dæmis mikið gagnrýnt á Akranesi að þar væru íbúðir ekki settar í sölu og um það hefur verið talað lengi. Svo gerist það núna held ég bara í þessari viku að allt í einu kemur stór auglýsing með miklum fjölda eigna þar sem auglýst er til sölu. Spurning mín til hæstv. félagsmálaráðherra er sú, vegna þess að þörfin er svo brýn bæði hvað varðar leiguíbúðir og söluíbúðir, hvort þetta gangi ekki nógu hratt fyrir sig hjá Íbúðalánasjóði.