143. löggjafarþing — 7. fundur,  10. okt. 2013.

bráðaaðgerðir til að efla leigumarkað á Íslandi.

5. mál
[11:49]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að taka undir að það er nauðsynlegt að efla leigumarkaðinn og mikilvægt að fólk hafi kost á því að leigja á viðráðanlegu verði.

Það sem mig langar hins vegar að gera hér að umtalsefni er byggingarreglugerðin og tala um endurskoðun á henni með tilliti til hönnunar á litlum hagkvæmum íbúðum. Ég tel afar mikilvægt að ekki verði slegið af kröfum um aðgengi við hönnun íbúða og vil minna á það að Ísland er aðili að samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks þar sem í 9. gr. er sérstaklega kveðið á um aðgengi fyrir alla. Hreyfihamlað fólk þarf ekkert síður á litlum íbúðum að halda en aðrir samfélagsþegnar, t.d. hjólastólanotendur, hreyfihamlaðir námsmenn, ungt hreyfihamlað fjölskyldufólk. Þetta fólk þarf líka að eiga kost á íbúðum á viðráðanlegum kjörum.

Það er hins vegar ekki nóg að það séu bara heimili fólks sem eru aðgengileg. Fatlað fólk er eins og aðrir þátttakendur í samfélaginu og til þess að geta verið fullgildur þátttakandi er nauðsynlegt að komast alls staðar um, geta til að mynda farið í heimsókn til ættingja eða vina. Það er bara stór hluti af því að vera manneskja og lifa lífinu. Ég held að við þurfum að fara mjög varlega í það ef við ætlum að gera íbúðir sem eiga að vera aðgengilegar fyrir fólk til að búa í en hafa svo annars konar íbúðir sem allir hinir eiga að búa í en hreyfihamlað fólk kemst ekki inn í.

Ég held að það skipti líka máli að hugsa til langs tíma. Það er ódýrara að hafa aðgengið í huga á byggingarstigi vegna þess að það er mun dýrara að breyta íbúðum eftir að þær hafa verið byggðar. Eins og við vitum öll er þjóðin að eldast og fólk þarf oft að nota meira af hjálpartækjum eftir því sem aldurinn hækkar. Þess vegna held ég að við megum ekki spara hér og nú í byggingarkostnaði í einhverju sem við þurfum svo að breyta eftir einhver ár vegna þess að þá þarf hreinlega fleira fólk aðgengilegar íbúðir.

Eins og ég segi vildi ég gera þetta atriði að umtalsefni en að öðru leyti líst mér mjög óskaplega vel á að farið verði í aðgerðir til að efla leigumarkaðinn á Íslandi.