143. löggjafarþing — 7. fundur,  10. okt. 2013.

bráðaaðgerðir til að efla leigumarkað á Íslandi.

5. mál
[12:13]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Páli Árnasyni, formanni Samfylkingarinnar, fyrir að mæla fyrir þessu mikilvæga máli öðru sinni. Það fór til velferðarnefndar á sumarþingi og var sent út til umsagnar þannig að það ætti að vera hægt að vinna nokkuð hratt í því núna. Eins er ég ánægð með að heyra að hæstv. ráðherra félags- og húsnæðismála telji eðlilegt að þetta mál komi einnig inn í þá vinnu sem er skipulögð á hennar vegum.

Varðandi húsnæðismálin vil ég segja að þau eru grundvallarvelferðarmál fyrir fjölskyldur landsins og þau eru líka stórt efnahagsmál. Þess vegna er svo mikilvægt að vanda vel til verka. Þess vegna vann síðasta ríkisstjórn gríðarlega vinnu á sviði húsnæðismála sem náði til upplýsingamála, sem náði til húsnæðisáætlana sveitarfélaga, sem náði til tillagna um húsaleigubætur og svo mætti lengi telja. Ég verð því að segja að ég tel að ekki þurfi svo mikla yfirlegu til að geta farið í beinskeyttar aðgerðir. Eins og farið hefur verið yfir hér er alvarlegur húsnæðisskortur á höfuðborgarsvæðinu a.m.k. og í ýmsum sveitarfélögum, til að mynda Höfn í Hornafirði svo ég nefni eitt dæmi af landsbyggðinni.

Hv. þm. Margrét Gauja Magnúsdóttir benti á það í ræðu sinni að sveitarfélögin hefðu ekkert byggt á síðustu árum og það er algerlega satt og það eru að koma inn árgangar sem vantar húsnæði og eru í rándýru leiguhúsnæði, búa ekki við húsnæðisöryggi. Ég þekki úr mínu umhverfi allt of stóran hóp ungs fólks sem býr í mikilli óvissu. Við búum líka í samfélagi þar sem mikið af ungu fólki hefur ekki lokið starfsnámi eða framhaldsskólanámi og er að reyna að fóta sig í lífinu, fer vonandi síðar í einhvers konar sérhæft nám hvort sem það er til hugar eða handa. Þetta unga fólk fær mjög lágar tekjur í þeirri vinnu sem því stendur til boða og það á mjög erfitt með að fá húsnæði við hæfi. Þetta er alvarlegur velferðarvandi og við erum að bregðast þessu fólki.

Eins og líka hefur verið komið inn á er fjöldi fólks sem hefur ekki tekjur til að standa undir kaupum á húsnæði þrátt fyrir að vera jafnvel með háskólamenntun á vinnumarkaði. Fjármögnunin skiptir að sjálfsögðu mjög miklu máli. Ef við sköpum grundvöll fyrir fasteignafélög sem leigja út húsnæði, samfélagslega ábyrga aðila sem eru með félög sem hafa sæmilegt eigið fé — þá þurfa einhverjir að leggja það til hvort sem það eru opinberir aðila eða einhverjir aðrir sem koma að því — þá er ekkert vandamál að fjármagna slíkt húsnæði. Það er undir hinum pólitíska vilja stjórnvalda komið hverju sinni að sinna því velferðarmáli sem húsnæðismál eru, en það verður aldrei hægt að fjármagna fasteignafélög með lélegt eigið fé með viðunandi hætti. Sögu þeirra þekkjum við, hún er sorgarsaga, hún er kostnaður fyrir ríkissjóð núna vegna taps Íbúðalánasjóðs á veitingu lána til þessara aðila. Það sem við leggjum til er að sveitarfélögin og ríkið komi inn með myndarlegum hætti, horfist í augu við að það er verkefni stjórnvalda að tryggja húsnæðisöryggi og skapa aðstæður og rekstrargrundvöll fyrir alvörufasteignafélög, fasteignafélög sem eru rekin með samfélagsábyrgum sjónarmiðum. Þetta húsnæði á að vera eftirsótt og þarf að vera í nálægð við þjónustu og almenningssamgöngur. Við þurfum að breyta því hugarfari að úthluta á sæmilegu verði lóðum í jaðarbyggðum til leiguhúsnæðis. Það er ekki sæmandi fyrir nútímavelferðarsamfélag.

Þá langar mig að koma inn á orð hv. þm. Steinunnar Þóru Árnadóttur og þakka henni fyrir að taka upp umræðuna um aðgengi fyrir alla. Ég naut þess að hlusta meðal annars á hana tala um aðgengi fyrir alla á málþingi Öryrkjabandalagsins sem var haldið fyrr í þessum mánuði frekar en seint í síðasta mánuði. Það var ákaflega gagnlegt málþing þar sem farið var yfir mikilvægi þess að við hönnuðum ekki bara húsnæði heldur önnur mannvirki í samfélagi okkar með það í huga að hreyfihamlaðir ættu greiðan aðgang að eðlilegu lífi, en ekki bara þeir sem búa við líkamlega fötlun af einhverju tagi heldur líka aldraðir. Þjóðin er að eldast. Það mun verða meiri þörf á að hugsa um þessi mál. Svo vitum við það öll sem höfum ferðast um bæinn með kerru eða vagn að gott aðgengi auðveldar lífið ótrúlega mikið. Þetta málþing var sérlega mikilvægt. Þar komu fram mjög margar hliðar á mikilvægi aðgengis fyrir alla. Ég held að það væri aldrei hægt að gefa þann afslátt á byggingarreglugerð að það ynni gegn því að fatlaðir gætu verið fullir þátttakendur með reisn í samfélagi okkar. Forstjóri Mannvirkjastofnunar, Björn Karlsson, var þarna og talaði og það var mjög áhugavert að hlusta á hann. Hann benti á að það væri misskilningur í umræðunni um byggingarreglugerð og það væri mikils virði að fólk settist niður saman og fyndi lausnir ef þyrfti að gera einhverjar breytingar til að þær ynnu ekki gegn einum ákveðnum þjóðfélagshóp, enda yrði það hálfhlálegt ef við segðum að kröfur fyrir fatlað fólk væri sérstakt vandamál í húsnæðismálum á Íslandi. Við búum við mjög alvarlegan húsnæðisvanda og getum sagt að hann sé fyrst og fremst á ábyrgð stjórnvalda og væri ómaklegt að nota kröfuna um aðgengi fyrir alla sem einhverja afsökun.

Ég tek algerlega undir að það er full þörf á að skoða og endurmeta byggingarreglugerðina, enda er ég flutningsmaður á þessari tillögu. Byggingarkostnaður er mjög mikill á Íslandi og við eigum að leita allra leiða sem auðvelda okkur að efla íslenskan leigumarkað og við verðum að gera það af virðingu fyrir öllum samfélagshópum.

Ég læt máli mínu lokið.