143. löggjafarþing — 7. fundur,  10. okt. 2013.

bráðaaðgerðir til að efla leigumarkað á Íslandi.

5. mál
[12:28]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil segja við hv. þm. Pál Jóhann Pálsson að ég tek undir þetta að vissu leyti, mér finnst að við hefðum getað gert meira. Ég tel þó ekki að við hefðum getað náð mikið lengra en við náðum því við unnum sannarlega mikla vinnu sem var mjög mikilvæg. Þess vegna er ég svolítið hugsi yfir því að ráðherra sé ekki með frumvörp á þingmálaskránni sem lúta að þessu, af því að ég held að við séum öll sammála um að staðan í húsnæðismálum er óviðunandi. Við þurfum að gera eitthvað fyrr en seinna því það er ekki hægt að bjóða fólki upp á að búa við þessar aðstæður.

Svo get ég tekið undir með þingmanninum og við getum velt fyrir okkur hver hefði átt að gera hvað hvenær. Ég er svolítið sammála honum, án þess að vera það að öllu leyti. En aðalatriðið er að við bregðumst ekki því fólki sem núna býr við húsnæðisóöryggi.