143. löggjafarþing — 7. fundur,  10. okt. 2013.

bráðaaðgerðir til að efla leigumarkað á Íslandi.

5. mál
[12:30]
Horfa

Flm. (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka góða og jákvæða umræðu og vil bregðast við nokkrum þeim þáttum sem nefndir hafa verið í umræðunni hingað til.

Ég þakka þátttöku stjórnarþingmanna hv. þm. Páls Jóhanns Pálssonar og hæstv. félags- húsnæðismálaráðherra Eyglóar Harðardóttur. Ég tel það mjög mikilvægt að við eigum uppbyggjandi samtal um þetta mál. Það er auðvitað hægt, eins og hv. þm. Páll Jóhann Pálsson rakti áðan, að velta því upp hvort lengra hefði verið hægt að komast á undanförnum árum. Að sumu leyti hefði verið hægt að komast lengra með einstök mál. Að sumu leyti byggir tillaga okkar núna á því að halda áfram þeirri vinnu sem við vorum byrjuð á, sérstaklega hvað varðar sameiginlegu húsnæðisbæturnar.

Nú verð ég bara að vera alveg hreinskilinn; ef við komum ekki með lagabreytingar núna fyrir áramót og höldum áfram að hrinda því verkefni í framkvæmd verðum við á sama stað eftir ár, ekkert mun hafa breyst eftir ár, ekki neitt. Þess vegna setjum við það í forgang. Það er alveg ljóst að umsögn allra umsagnaraðila er grundvallaratriði. Húsnæðisbætur eru ekki sérmál Samfylkingarinnar. Þær eru afrakstur þessa samstarfs sem aðilar vinnumarkaðarins og sveitarfélögin komu að og eru hluti af heildstæðri stefnumótun sem allir flokkar komu að.

Ég vil því ekki að menn stilli því þannig upp þegar við rekum á eftir því eða minnum á það að við séum að reka erindi Samfylkingarinnar. Við erum bara að tala fyrir því sem orðið er sammæli meðal allra. Það er alveg ljóst af umsögnum umsagnaraðila að það verður að tryggja framgang þess máls, það verður að jafna aðstöðuna. Húsaleigubætur verða að vera þannig að þær séu greiddar venjulegum fjölskyldum ef kerfið á að geta gengið upp, ef hægt á að vera að byggja upp leigumarkað.

Ég tek undir með hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, ég hef nokkrar áhyggjur af því hvernig hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra hagar vinnunni núna,. Ég óttast að málið festist í of mikilli bið. Ég hef t.d. tekið eftir því að bæði Samband íslenskra sveitarfélaga og Alþýðusamband Íslands hafa gert athugasemdir við hæstv. ráðherra um að þessir aðilar séu ekki hluti af verkefnastjórninni sem ráðherra er búinn að setja á fót. Það er mjög hættulegt vegna þess að við komumst ekki neitt í þessum málum nema að hafa sveitarfélögin og verkalýðshreyfinguna við borðið. Fyrir því höfum við 100 ára reynslu að við komumst ekkert í húsnæðismálum í landinu nema að allir séu saman að þessu leyti.

Ég vil bara hvetja hæstv. ráðherra, sem er því miður ekki lengur í salnum, til að endurskoða þetta og passa að sveitarfélögin og verkalýðshreyfingin séu með fulltrúa í innsta hring í stefnumótuninni.

Eins og ég skildi hæstv. ráðherra talaði hún fyrir því að þessi tillaga okkar yrði innlegg í frekari vinnu. Ég vil ganga lengra. Ég vil að þingið afgreiði tillöguna. Mér finnst að þingið eigi að tjá vilja sinn í þessu efni. Mér finnst ekki rétt að taka tillögu eins og þessa sem allir eru í grunninn sammála um og möndla hana sem innlegg inn í einhverja vinnu sem er á forræði eins ráðherra. Mér finnst eðlilegt að þingið tjái vilja sinn, komist að niðurstöðu, sé tilbúið til samninga um það. Mér finnst að þingið þurfi að tjá vilja sinn um að það vilji sjá húsnæðisbætur. Ég held við þurfum að samþykkja það því að annars óttast ég að við gerum ekkert og að eftir ár verðum í sömu stöðunni, höldum öll saman sömu ræðurnar og að ekkert hafi breyst.

Þess vegna hvet ég til þess að við tökumst á um það í nefndinni hvernig menn vilja orða þetta nákvæmlega þannig að það verði úr því þingsályktun sem veiti ráðherrunum betra umboð og betri grunn. Ég var alveg sammála hæstv. forsætisráðherra þegar hann kom hér í sumar og óskaði eftir þingsályktunartillögu um skuldamál heimilanna vegna þess að hann vildi fá stuðning og umboð þingsins. Ég tel að ríkisstjórninni væri með alveg sama hætti styrkur af því að fá skýrt umboð þingsins hvað þetta varðar.

Ég held líka að við verðum að horfast í augu við það og tala opinskátt um það þegar við komum að hugmyndum okkar um leigustyrki að ekki verður byggður upp húsnæðismarkaður á Íslandi við núverandi aðstæður sem þjónar hagsmunum allra nema með aðkomu ríkisins. Það mun kosta ríkið fé. Það er draumsýn að hægt sé að reka húsnæðiskerfi þar sem allir borga markaðskjör fyrir húsnæðið, það verður aldrei þannig. Við sjáum núna að kennarar flokkast til millitekjuhópa. Nýútskrifaður kennari er með röskar 300 þús. kr. á mánuði. Þá sjáum við vel að einstætt foreldri sem er kennari með tvö börn stendur ekki undir húsnæðiskostnaði. Hvert erum við þá komin? Samkvæmt nýlegu fjárlagafrumvarpi flokkast viðkomandi sem millitekjuhópur en hann ræður ekki við einfalt húsnæði. Það er viðvarandi vandamál sem ekki er hægt að loka augum fyrir.

Varðandi síðan umræðuna um algilda hönnun og endurskoðun á byggingarreglugerð þakka ég hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur fyrir ábendingu hennar. Þegar við viljum endurskoða byggingarreglugerðina viljum við endurskoða hana út frá einhvers konar hagsmunamati. Það verður að vera einhvers konar hagsmunamat. Ég held að skipti miklu að við aukum veg algildrar hönnunar, en ég held við verðum líka að hugsa hvort við búum við þær aðstæður að við getum gert ríkari kröfur t.d. en önnur Norðurlönd í byggingarreglugerð. Þegar við horfum til þess að sárasti skorturinn núna er á litlum íbúðum, að það vantar litlar íbúðir, meðan á Norðurlöndunum er til gríðarlegur stokkur af litlum íbúðum, efast ég um að skynsamlegt sé að byrja á að banna byggingu lítilla íbúða. Það virðist í reynd vera niðurstaðan að eins og byggingarreglugerðin er núna sé bara bannað að byggja íbúðir eða ekki hægt að hanna íbúðir sem eru minni en 70 fermetrar. Það held ég að sé verulegt vandamál.

Það má líka nefna einangrunarkröfurnar, sem eru mjög skynsamlegar í löndum sem brenna kolum til að kynda hús, en það er alveg spurning hvort við verðum að ganga jafn hart fram í einangrun þegar við kyndum með heitu vatni. Það eru slíkir þættir sem ég tel að við þurfum að horfa á af fullri sanngirni. Í viðhorfskönnunum segist fólk helst vilja búa í gamla bænum þar sem ráðandi form byggðar er þriggja hæða hús. Með nýrri byggingarreglugerð er gerð krafa um lyftu í þriggja hæða húsi í öllum tilvikum. Þrýstingur verktaka verður óhjákvæmilega á að byggja fimm hæðir, sem skapar aftur vandamál í skipulagsmálum.

Mér finnst við verða að hugleiða eftirfarandi: Viljum við koma í veg fyrir að hægt sé að byggja borgarhverfi af þeirri gerð og samsetningu sem eru vinsælust meðal fólks í dag?

Það er líka athyglisvert að áður en nýja byggingarreglugerðin var sett bjuggum við í tvöfalt stærra húsnæði en Finnar. Mér finnst það umhugsunarefni hvort það sé forgangsverkefni að auka enn þann stærðarmun þegar byggingarkostnaður er alvarlegasta vandamálið sem við er að glíma.

Ég nefni líka bílastæðakröfurnar sem eru orðnar mjög íþyngjandi í byggingarreglugerð þar sem ungt fólk þarf að borga bílastæði í kjallara upp á 3, 4 milljónir til viðbótar við íbúðina o.s.frv.

Það eru allir þessir þættir sem ég held við þurfum að horfa á varðandi hvernig við getum búið umgjörð um byggingarreglugerðina þannig að hún samrýmist þörfum allra, líka uppsafnaðri þörf í landinu fyrir litlar íbúðir. Það hafa ekki verið byggðar litlar íbúðir í áratugi. Okkur vantar stokk af litlum íbúðum sem getur verið val fyrir fólk sem þarf á ódýru, litlu húsnæði að halda.

Varðandi síðan Íbúðalánasjóð og leigufélagið þar vil ég ítreka það sem hér hefur komið fram; auðvitað þarf þar að spýta í. Ég hef líka áhyggjur af því sem ég heyri vítt og breitt um landið að Íbúðalánasjóður sé kominn í þá stöðu núna að stöðva viðskipti með fasteignir. Maður heyrir það á Patreksfirði, Bíldudal, Höfn í Hornafirði, að sjóðurinn neiti að samþykkja kaupsamninga vegna þess að verðið sé hærra en menn hafi ákveðið að sé markaðsverð á viðkomandi stöðum. Það er orðið vandamál fyrir þessa staði á landsbyggðinni þegar atvinnulíf er að glæðast og eftirspurn eftir íbúðum að aukast. Það er auðvitað svolítið skrýtin staða sem lánasjóður í eigu ríkisins er kominn í ef hann er farinn að standa í vegi fyrir eðlilegri framþróun á íbúðamarkaði úti um land. Það þarf auðvitað agaða umgjörð utan um Íbúðalánasjóð að þessu leyti. Hann verður að gera sitt í þessum efnum.

Ég vil að síðustu ítreka ósk mína um að málinu verði vísað til velferðarnefndar og að við semjum okkur niður á niðurstöðu um þingsályktun um þetta málefni sem allir flokkar geta sætt sig við.