143. löggjafarþing — 7. fundur,  10. okt. 2013.

samstarf við Færeyjar og Grænland vegna fækkunar kvenna á Vestur-Norðurlöndum.

39. mál
[13:42]
Horfa

Frsm. ÍVN (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir þingsályktunartillögu þar sem gert er ráð fyrir því að samstarf Íslendinga, Færeyja og Grænlands verði um að gera samantekt um orsakir fækkunar kvenna á Vestur-Norðurlöndum. Við skorum hér með á ríkisstjórnina að efna til slíks samstarfs sem felst í því að gera samantekt yfir þær kannanir og rannsóknir sem lúta að orsökum þess að konum fækkar hlutfallslega meira en körlum meðal íbúa á Vestur-Norðurlöndum og að teknar verði saman niðurstöður slíkra rannsókna og kannana en einnig lagðar fram tillögur og stefnumörkun sem miðar að því að snúa þessari þróun við.

Tillagan felur ekki í sér að stjórnvöld eigi að fara út í nýjar rannsóknir. Það liggja fyrir talsverðar rannsóknir í nágrannalöndum okkar og horfum við þá aðallega til Norðurlandanna, en maður hefur rekið sig á það í samtölum við til dæmis þingmenn á þingi Sama í Noregi að menn hafa áhyggjur af því ástandi sem hér er lýst, þ.e. að konum virðist vera að fækka á þessum jaðarsvæðum.

Tillagan felur í einfaldleika sínum í sér að safna saman upplýsingum á einn stað þannig að við getum lært af þeim rannsóknum sem þegar liggja fyrir og stjórnvöld, og þá sérstaklega stjórnmálamenn og þeir sem hér sitja, geti áttað sig á því hvers vegna staðan er svona og síðan í kjölfarið reynt að finna út úr því hvort og hvernig er hægt að bregðast við. Þetta er því ekki ný rannsókn heldur samantekt og mikilvægasti hlutinn af því öllu er að draga saman tillögur um það hvernig megi snúa þróuninni við með vísan í reynslu annarra landa eða svæða, sem leggja má til grundvallar þessari stefnumörkun.

Það er ljóst að vandamálið er þekkt og helsta áskorunin í Færeyjum er fólksfækkun, einkum fækkun kvenna. Það sama má segja um Grænland, misjafnt þó eftir svæðum, en það er síst á Íslandi sem við þekkjum þá þróun. Engu að síður erum við skyld og svæðin eru lík að mörgu leyti, sérstaklega hinar dreifðari byggðir, þannig að þetta er mikilvægt verkefni sem ég vonast til að ríkisstjórnir landanna bregðist hratt og vel við og að þingsályktunartillagan muni bera árangur.

Herra forseti. Að lokum óska ég eftir því að tillögunni verði vísað til umfjöllunar í utanríkismálanefnd.