143. löggjafarþing — 7. fundur,  10. okt. 2013.

samstarf við Færeyjar og Grænland um málefni norðurslóða.

42. mál
[13:54]
Horfa

Frsm. ÍVN (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um að styrkja samstarf við Færeyjar og Grænland um málefni norðurslóða. Ég vil taka fram að það var mikið og gott samstarf í Íslandsdeildinni og allir þingmenn úr þeim flokkum sem skipa Íslandsdeildina eru á öllum tillögunum sem við ræðum í dag.

Í ályktuninni er gert ráð fyrir því að Alþingi skori á ríkisstjórnina að styrkja samstarf við Færeyjar og Grænland um málefni norðurslóða ásamt því að vinna að sameiginlegri vestnorrænni stefnumörkun varðandi norðurslóðir á þeim sviðum þar sem hagsmunir landanna fara saman og þau eru á einu máli. Utanríkisráðherra Íslands hitti utanríkisráðherra landanna tveggja reglulega til að ræða málefni norðurslóða og önnur sameiginleg hagsmunamál vestnorrænu landanna, helst árlega eða annað hvert ár hið minnsta. Lagt er til að fundurinn verði haldinn samhliða ársfundi Vestnorræna ráðsins ef mögulegt er.

Herra forseti. Við þekkjum það að ríki heims sýna norðurslóðum vaxandi áhuga. Við höfum séð það í fjölmiðlum. Við þekkjum það, sjáum ráðstefnuna sem á að fara fram í Hörpunni um helgina og stendur nú yfir á Akureyri. Þess vegna er mjög mikilvægt að við sem búum á norðurslóðum séum virkir þátttakendur í umræðunni um hvernig hlutirnir koma til með að þróast vegna þess að það er aðeins eitt sem er víst varðandi norðurslóðir og það er að hlutirnir eru að breytast, þeir munu breytast hratt en við vitum ekkert endilega hvernig þeir munu breytast.

Það er í rauninni þannig að tveir möguleikar eru í stöðunni. Við getum horft á, fylgst með því sem sérfræðingarnir segja, fylgst með því hvað stóru þjóðirnar eru að gera, hvað Rússarnir eru að skipuleggja. Rússarnir eru að byggja upp gríðarlega mikil hafnarmannvirki eftir allri norðurströndinni hjá sér til þess að búa sig undir þær miklu breytingar sem fram undan eru. Sama má segja að sé uppi á teningnum varðandi áhuga Kanadamanna. Við þekkjum hinn mikla áhuga sem Evrópusambandið hefur á norðurskautsmálum.

Það er möguleiki að sitja og horfa á. Hinn möguleikinn er að vera virkur þátttakandi og reyna að leiða umræðuna, reyna að ná fram þeim sameiginlegu hagsmunum sem þessar þrjár þjóðir hafa, setja okkur markmið og reyna síðan að komast í þá stöðu að vera með gilda rödd í umræðunni.

Ég og við í Vestnorræna ráðinu teljum að með því að þjóðirnar þrjár sem eru í samstarfinu um vestnorrænt samstarf tali einni röddu heyrist hærra í okkur. Við teljum mikilvægt að reyna að setja saman sameiginlega vestnorræna stefnumörkun því að ef við tölum einni röddu og höfum skýra stefnu er miklu líklegra að við náum árangri.

Þess vegna er mikilvægt að greina hvar hagsmunir þjóðanna þriggja liggja saman. Það er auðvitað ekki alls staðar sem þeir liggja saman, en það eru til svið þar sem við getum unnið þétt saman.

Það hefur verið mikil umræða um áhrifin af loftslagsbreytingunum sem standa yfir. Þróun loftslagsins skapar þrýsting á okkur sem búum í löndunum á að skoða sameiginlega hagsmuni okkar.

Ég vona svo sannarlega að þessi þingsályktunartillaga verði að veruleika. Við ákváðum á ársfundum okkar í ágúst að leggja okkar af mörkum í Vestnorræna ráðinu. Við höfum fengið sérfræðing á því sviði til þess að byrja að setjast niður með okkur og kortleggja hvar hagsmunirnir gætu legið saman þannig að við séum með einhvern grundvöll fyrir ríkisstjórnirnar þegar og ef Alþingi samþykkir þingsályktunartillöguna, að það verði tilbúinn grunnur sem getur orðið einhvers konar upphafsplagg í þeirri vinnu sem við teljum mikilvægt að ríkisstjórnir landanna þriggja leiði.

Það var haldin ráðstefna á Grænlandi árið 2012, svokölluð árleg þemaráðstefna. Hún var haldin í Ilulissat á Grænlandi undir yfirskriftinni „Staða Vestur-Norðurlanda í alþjóðakerfinu, með sérstakri áherslu á norðurslóðir“. Í þeirri umræðu allri var meginniðurstaðan sú að umhverfis- og loftslagsbreytingar á norðurslóðum hafi haft og muni áfram hafa margar og fjölbreytilegar afleiðingar, ekki síst þegar kemur að efnahagslegum umsvifum í tengslum við nýtingu málma og annarra auðlinda ásamt mögulegri opnun nýrra siglingaleiða á norðurslóðum. Sú þróun hefur leitt til þess að fleiri þjóðir, eins og ég lýsti hér áðan, hafa áhuga á norðurslóðum. Við þurfum að tryggja okkur vestnorrænu löndunum hlutverk í því pólitíska ákvörðunarferli sem fram undan er um málefni norðurslóða og hagsmuni á Norður-Atlantshafi. Til þess að við stöndum sterkari fótum er best að við stöndum saman.

Herra forseti. Niðurstaðan var sú að þessi þrjú lönd ættu að skilgreina sameiginlega hagsmuni. Við í Vestnorræna ráðinu höfum rætt það talsvert og erum, eins og ég sagði áðan, þegar farin að undirbúa plagg sem getur orðið grunnur. Ég vonast svo sannarlega til að við sjáum niðurstöðu frá ríkisstjórnunum um þetta samstarf vegna þess að það er gríðarlega mikilvægt fyrir vinnuna fram undan og auðvitað fyrir komandi kynslóðir.

Herra forseti. Ég vil að lokum óska eftir því að þessi þingsályktunartillaga gangi til utanríkismálanefndar.