143. löggjafarþing — 7. fundur,  10. okt. 2013.

samstarf við Færeyjar og Grænland á sviði heilbrigðisþjónustu.

44. mál
[14:07]
Horfa

Frsm. ÍVN (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Hér ræðum við um þingsályktunartillögu er varðar aukið samstarf milli landanna þriggja á sviði heilbrigðisþjónustu. Hún felur það í sér að Alþingi álykti að skora á ríkisstjórnina að gera samninga við stjórnvöld Færeyja og Grænlands um aukið samstarf á sviði heilbrigðisþjónustu, einkum hvað varðar skurðlækningar. Þá kemur fram að sérhæfing hvers lands á mismunandi sviðum skurðlækninga verði nýtt þar sem því verður við komið. Skorað er á heilbrigðisráðherra landanna að útvíkka slíkt samstarf til annarra sviða og ná samkomulagi um þátttöku allra landanna þannig að þau geti bæði verið veitendur og viðtakendur þjónustunnar.

Ég sagði áðan frá þemaráðstefnu sem Vestnorræna ráðið stóð fyrir á Ísafirði í janúar á þessu ári. Það var ráðstefna varðandi heilbrigðismál og er þessi þingsályktunartillaga afrakstur þeirrar ráðstefnu. Þar kom m.a. fram að íslenskur skurðlæknir geri nú aðgerðir á sjúklingum í Færeyjum mánaðarlega og að slíkt fyrirkomulag henti öllum hlutaðeigandi. Þá kaupa Færeyingar hágæðaþjónustu á samkeppnishæfu verði, Landspítalinn fær aukatekjur vegna útseldrar vinnu og síðan en ekki síst fá sjúklingarnir persónulega þjónustu í heimalandi sínu í stað þess að þurfa að sækja hana til útlanda, t.d. til Danmerkur, eins og Færeyingar og Grænlendingar hafa oft þurft að gera.

Vonandi verður þessi þingsályktunartillaga til þess að útvíkka þetta samstarf þannig að Grænlendingar muni jafnframt njóta góðs af. Við það er líka að bæta að viðkomandi læknar sem sinna slíkri þjónustu fá í rauninni stærra svið, fleiri tækifæri til þess að viðhalda og auka færni sína. Þetta fyrirkomulag hefur reynst mjög vel í Færeyjum og hefur verið við lýði í nokkur ár. Í sumum tilvikum hefur það orðið til þess að þjónustan hefur tekið skemmri tíma en ella.

Öll löndin þrjú þekkja niðurskurð í heilbrigðismálum í kjölfar heimskreppunnar, en þegar við horfum fram á aukin efnahagsleg umsvif á norðurslóðum í kjölfar þeirra miklu breytinga sem fram undan eru verðum við að vera klár í slaginn og tilbúin með grunnstoðirnar undir það. Það er aðalmálið varðandi þessa tillögu að efla samstarf þannig að allir njóti góðs af. Vona ég svo sannarlega að heilbrigðisráðherrar landanna muni auka með sér samstarf. Ég veit að það er þegar talsvert samstarf og samskipti í gangi á milli landanna þriggja og fagna ég því sérstaklega. Ég vonast til þess að samantekt á niðurstöðum þemaráðstefnunnar muni nýtast ráðherrunum í starfi sínu og er ég þess fullviss að svo verði.

Herra forseti. Mig langar í lok máls míns um allar þessar ályktanir Vestnorræna ráðsins að minnast á eina ályktun sem samþykkt var á ársfundinum þó svo að hún liggi ekki fyrir hér í þingsályktunarformi. Hún varðar löndunarbann Evrópusambandsins, en í dag rak á fjörur mínar yfirlýsingu í formi fréttar frá þingmanni í Evrópuþinginu sem situr í sjávarútvegsnefnd. Hann kvartaði yfir því að Evrópusambandið væri ekki búið að ganga nægilega hart fram gagnvart Íslendingum og Færeyingum varðandi refsiaðgerðir út af makríldeilunni. Evrópusambandið samþykkti á árinu að beita löndunarbanni á Færeyinga vegna síldarinnar og á Íslendinga og Færeyinga vegna makríls.

Þó að við í Vestnorræna ráðinu séum kannski ekki alveg sammála um síldardeiluna og þær aðferðir og kröfur sem Færeyingar hafa viðhaft þar er það aldrei lausn í alþjóðlegum samskiptum að beita refsiaðgerðum eins og löndunarbanni. Það kemur mér svolítið á óvart að þingmenn á Evrópuþinginu séu með þessum hætti að krefjast þess að gengið verði harðar fram þegar Evrópuþingið þekkir þá stöðu sem upp kom varðandi selveiðar á Grænlandi þegar selveiðar voru bannaðar þar og gengið var hart fram í refsiaðgerðum gegn Grænlendingum á því sviði. Maður verður hálfundrandi yfir því að menn skuli ekki hafa lært af þeirri reynslu.

Auðvitað eiga menn að setjast saman þegar þá greinir á í málum sem þessum og öðrum og reyna að finna lausn. Lausnin er ekki sú að beita refsingu gegn litlum þjóðum. Það vekur athygli að Evrópusambandið hefur ekki viðhaft viðlíka hótanir gagnvart Rússum sem aukið hafa makrílveiðar sínar gríðarlega mikið. Hvers vegna skyldi það nú vera að það er auðveldara að hóta refsingum og krefjast þess að þeim sé beitt gagnvart Íslendingum og Færeyingum en ekki er minnst einu orði á Rússa?

Mig langaði bara að vekja athygli á þessari ályktun sem ársfundurinn sendi frá sér vegna þess að hún er að sjálfsögðu mikilvæg og við munum fylgjast áfram með því með hvaða hætti málinu vindur fram af hálfu Evrópusambandsins.

Herra forseti. Mig langar að lokum að óska eftir því að þessari þingsályktunartillögu verði vísað til utanríkismálanefndar. Mig langar aftur að þakka hv. þingmönnum, sem hafa blandað sér í umræðuna hér og tekið þátt í vinnunni í Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins, kærlega fyrir samstarfið. Ég skora á Alþingi Íslendinga og ríkisstjórnina að vinna að framgangi þeirra mála sem við höfum rætt hér í dag.