143. löggjafarþing — 7. fundur,  10. okt. 2013.

samstarf við Færeyjar og Grænland á sviði heilbrigðisþjónustu.

44. mál
[14:14]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka formanni Vestnorræna ráðsins, hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur, fyrir skelegga kynningu á þessum sex þingsályktunartillögum frá okkur í Vestnorræna ráðinu. Mig langar til að ítreka hvað þessar þjóðir eru nánar okkur og hvað þetta er mikilvægt starf, þetta samstarf.

Maður fann það þegar maður var þarna úti og hitti þetta fólk hvað það stendur okkur nærri, hvað hagsmunirnir eru svipaðir, það liggur við að maður tali sama tungumál, á vissan hátt má segja það. Það er gríðarlega mikilvægt að við eflum samstarfið við þessar þjóðir. Við eigum svo margt sameiginlegt. Við erum bara smáþjóðir eins og kemur núna fram í þessum fiskveiðideilum við þennan stóra risa, Evrópusambandið, þannig að við þurfum að standa vörð um hagsmuni okkar og standa vel saman. Eins og hér hefur komið fram eru þetta mjög jákvæð mál og þó að við séum í þessum hópi eitthvað fleiri, það séu fleiri Íslendingar en Færeyingar eða Grænlendingar þá er Grænland talsvert stærra en Ísland. Ég er stoltur af að vera hluti af þessari vestnorrænu deild og hvet okkur til að slá ekki af í þessu samstarfi.