143. löggjafarþing — 8. fundur,  14. okt. 2013.

aukin skattheimta.

[15:06]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég beini máli mínu til hæstv. ráðherra, jafnt í hlutverki hans sem sjávarútvegsráðherra og sem varaformaður Framsóknarflokksins. Hann hefur í umræðu um veiðigjöld á undanförnum vikum og mánuðum talað nokkuð ákaft fyrir því sem nefnt hefur verið brauðmolahagfræði á Vesturlöndum á þann veg að gott sé að lækka fjárhæð veiðigjalda því að þá verði meiri peningar eftir hjá útgerðinni til að fjárfesta og að við njótum öll ávaxtanna af því.

Þessi brauðmolahagfræði hefur á undanförnum árum og áratugum leitt til vaxandi misskiptingar um öll Vesturlönd. Síðast þegar þessir tveir flokkar voru í ríkisstjórn, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, elti Ísland Bandaríkin og gekk næstum því jafn langt í aukinni misskiptingu og Bandaríkin á þann veg að það 1% þjóðarinnar sem mest hefur milli handanna tók til sín 5% af þjóðarauðnum árið 1995 en nær 20% árið 2008.

Það er vert að minna á að nú eru komnar fram nýjar hugmyndir á vettvangi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um að skynsamlegt sé að leggja auknar byrðar á ríkasta prósentið, það sé eðlilegt að þessi hópur beri ríkari byrðar en hann hefur gert hingað til. Í skýrslunni er sérstaklega nefnt frumkvæði Íslands og að Ísland hafi lagt á auðlegðarskatt á undanförnum árum. Ég vil þess vegna beina þeirri fyrirspurn til ráðherrans hvort þessi staða skapi ekki ákveðna viðspyrnu fyrir Framsóknarflokkinn í ríkisstjórn eða fyrir ríkisstjórnina í heild. Er ekki ástæða til að sækja meira til þeirra sem mest hafa? Eiga menn ekki að geta horft á ýmsar aðrar leiðir en að lækka skatta á þá sem best eru í færum til að borga? Það eru möguleikar fyrir hendi t.d. til að leggja á auðlegðarskatt með einu formi eða öðru til að tryggja brýnt fjármagn til heilbrigðisþjónustunnar sem við erum öll (Forseti hringir.) sammála um í þessum sal að vanti.