143. löggjafarþing — 8. fundur,  14. okt. 2013.

bætt lífskjör.

[15:22]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Ég þakka ráðherra mjög góð svör og ég gleðst yfir því að hún skuli taka undir það sem þessir menn segja, og slái ekki á útrétta sáttarhönd eins og hæstv. forsætisráðherra gerði í raun með svari sínu — og manni brá aðeins við þegar það svar birtist. En það er bara gott ef við stöndum öll saman um þetta og þetta er einn stór liður, hvað sem okkur kann að finnast um Evrópusambandið og aðild að því, í því að endurreisa Ísland, teljum við.

Það er bara gott að ríkisstjórnin skuli standa við það sem stendur í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar sem hún segir meðal annars að með aðgerðum sínum hyggist hún eyða þeirri pólitísku óvissu sem hafi verið of áberandi þáttur í íslensku þjóðlífi á undanförnum árum og að unnið verði að víðtækari sátt við aðila vinnumarkaðarins um þróun vinnumarkaðar og uppbyggingu til framtíðar.

Það er gleðiefni ef ríkisstjórnin stendur við það en þetta svar hæstv. forsætisráðherra um daginn sló mann svolítið.