143. löggjafarþing — 8. fundur,  14. okt. 2013.

stimpilgjöld.

[15:28]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Hæstv. ráðherra segir: Eins og ég hef skilið það, þ.e. frumvarpið. Já, ég hygg nefnilega að það komi mörgum á óvart hvað í þessu frumvarpi stendur og þar á meðal kannski ráðherranum sjálfum eins og hún lýsir hér.

Boðað hefur verið og lofað að afnema stimpilgjöldin vegna fasteignakaupa. Það var yfirlýst stefna Sjálfstæðisflokksins. Þetta frumvarp ræddum við hér um daginn þegar mjög seint var liðið á dag og ekki einn einasti framsóknarmaður tók þátt í umræðunni eða sjálfstæðismaður. Stjórnarflokkarnir skiluðu auðu hvað þetta varðar og létu ekki sjá sig í þingsal. Í raun og veru skil ég það vel.

Þetta frumvarp gerir ráð fyrir ríflega tvöföldun stimpilgjalda á afsöl þegar einstaklingar kaupa húsnæði þremur mánuðum eftir að stefnt skyldi að afnámi stimpilgjalda. Hvernig í ósköpunum ætlar hæstv. ráðherra húsnæðismála, sem mér hefur oft heyrst talað þannig að hún standi með húskaupendum, að styðja þetta frumvarp (Forseti hringir.) sem ég geri hér að umtalsefni?

Ég spyr (Forseti hringir.) aftur: Styður hæstv. ráðherra þessar álögur á fyrstu húsnæðiskaupum?