143. löggjafarþing — 8. fundur,  14. okt. 2013.

lagaumhverfi náttúruverndar.

[15:38]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Náttúruverndarlögin, sem voru samþykkt hér á síðasta þingi, fólu í sér mikla framför í málefnum náttúruverndar. Lögin frá 1999 höfðu þá lengi verið gagnrýnd fyrir skort á vernd og óvissu um stöðu náttúrunnar í þeim lagabálki.

Sú framför sem fólst í hinum nýju náttúruverndarlögum, sem voru samþykkt hér í vor, var meðal annars sérstök verndarmarkmið annars vegar fyrir vistgerðir, vistkerfi og tegundir og hins vegar fyrir jarðminjar, vatnasvæði og landslag. Þar voru útfærðar nokkrar af helstu meginreglum umhverfisréttar, til að mynda varúðarreglan og greiðslureglan. Kveðið var á með skýrari hætti um hlutverk stjórnvalda og ábyrgð sem og um verkaskiptingu þeirra á milli. Mælt var fyrir um undirbúning ákvarðana og réttaráhrif þeirra og lögð áhersla á vísindalegan grundvöll ákvarðanatöku.

Staða almannaréttar var styrkt og lagt til að náttúruminjaskrá, þar á meðal framkvæmdaáætlun hennar, yrði meginstjórntæki náttúruverndar á Íslandi og lagðar til breytingar eða gerðar breytingar á undirbúningi friðlýsinga og skýr ákvæði um undanþágu frá ákvæði um auglýsingu um friðlýsingar og um afnám eða breytingum friðlýsinga, m.a. með auknu samráði við fleiri aðila.

Þessi löggjöf, sem við samþykktum á síðasta þingi, byggðist á mikilli vinnu sem birtist fyrst í hvítbók um löggjöf til verndar náttúru Íslands sem var aðalefni umhverfisþings 2011. Efnt var til kynningarfunda af hálfu umhverfisráðuneytisins, umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, um hvítbókina. Fram fór opið umsagnarferli þar sem bárust fjöldamargar umsagnir. Frumvarpið breyttist verulega frá þeim hugmyndum sem voru lagðar til í hvítbókinni.

Síðan voru drög að nýju frumvarpi birt og óskað eftir umsögnum. Það bárust margar umsagnir og að lokum var frumvarpið lagt fram og ég get líka greint frá því hér að gerðar voru heilmiklar breytingar í meðförum Alþingis á því frumvarpi sem lagt var til nýrra náttúruverndarlaga, en að lokum voru samþykkt lög með gildistíma sem átti að hefjast í vor. Nú hefur hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, kynnt það, bæði í orði og á þingmálaskrá, að þessi nýja löggjöf verði afturkölluð. Hann hyggst leggja fram frumvarp og óska eftir samþykki þingsins um að þessi nýja löggjöf verði afturkölluð.

Það sló mig, sérstaklega af því að ég er vissulega ekki sammála þeirri ákvörðun hæstv. ráðherra að afturkalla þessi lög. Þær ástæður sem hann hefur nefnt fyrir því eru að ekki hafi verið nægileg sátt um ýmsar greinar. Það sem ég óska eftir því að fá að heyra frá hæstv. ráðherra er að það sló mig að hann greindi frá því í fréttum, þegar sagt var frá þeirri ákvörðun hans að leggja fram tillögu til afturköllunar, að við mættum eiga von á nýju frumvarpi til náttúruverndarlaga á vorþingi. Þetta kom fram í viðtali við hæstv. ráðherra í fréttum Ríkisútvarpsins þann 25. september síðastliðinn. Það sló mig svo að á þingmálaskrá er einungis boðað frumvarp til afturköllunar en ekki nýtt frumvarp sem þýðir þá að við eigum að hafa hér áfram lögin frá 1999. Í raun og veru er verið að boða afturför í málefnum náttúruverndar því að horfið er frá öllum þeim umbótum sem fólust í nýju lögunum.

Ég vil þá spyrja hæstv. ráðherra:

Hefur hann ekki trú á því að hann nái að leggja fram frumvarp til nýrra náttúruverndarlaga í vetur?

Ég vil líka spyrja af því að hæstv. ráðherra hafði lagt á það mikla áherslu að hann vildi skapa meiri sátt og aukna sátt um ný lög um náttúruvernd:

Hverjir verða kallaðir til samráðs? Er vinnan hafin við að skapa þá sátt? Verða náttúruverndarsamtök kölluð til samráðs? Verður hv. umhverfis- og samgöngunefnd kölluð til samráðs? Má búast við því að kynningarferlið í þessum lögum verði opið á fyrri stigum? Verður byggt á hvítbókinni um náttúruverndina og þeirri vinnu sem þar er að finna?

Að lokum langar mig að spyrja hæstv. ráðherra — því að á þingmálaskrá er síðan boðuð þingsályktunartillaga um nýja náttúruverndaráætlun, 2013–2017, sem byggist auðvitað á lögunum frá 1999: Hvernig verður þá háttað samráði við undirbúning hennar, til að mynda við sveitarfélög sem einmitt gagnrýndu gömlu löggjöfina, frá 1999, fyrir skort á samráði? Nýju lögunum var meðal annars ætlað að bæta úr því. Verður ferlinu eitthvað breytt við það að undirbúa nýja náttúruverndaráætlun til næstu fjögurra ára, byggða á gömlu lögunum? Hvernig sér hæstv. ráðherra fyrir sér að það fari saman? Hyggst hann hugsanlega nýta þá ferla sem lagðir voru til grundvallar í nýju lögunum við undirbúning þeirrar áætlunar eða ætlar hann að hverfa aftur til þess ferlis sem hafði verið gagnrýnt?

Ég tel, hæstv. forseti, að það þurfi að svara mörgum spurningum um þessar fyrirætlanir hæstv. ráðherra og lít svo á að þessi umræða sé rétt blábyrjunin á (Forseti hringir.) þeirri umræðu sem á eftir að fara fram um þessi mál.