143. löggjafarþing — 8. fundur,  14. okt. 2013.

lagaumhverfi náttúruverndar.

[15:51]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegi forseti. Mig langar til að biðja alla um að ræða þennan málaflokk af svolítilli stillingu og á málefnalegan hátt, það er mikilvægt að við séum á sömu blaðsíðu gagnvart mikilvægi málaflokksins.

Hæstv. ríkisstjórn hefur byrjað feril sinn á þessu sviði dálítið óheppilega, umgengist málaflokkinn svolítið eins og við mundum kannski ekki vilja umgangast náttúruna, en gott og vel. Hæstv. ráðherra er búinn að útskýra hérna að einhverju marki hvað hann ætlar með málaflokkinn. Ég heyri ekki betur á honum en að þar séu nokkrir hnútar sem þurfi að taka á. Þá mundi ég telja eðlilegt og vildi leggja til, eins og ég gerði við hæstv. ráðherra þegar hann kom og heimsótti okkur í umhverfis- og samgöngunefnd í síðustu viku, að ráðherra kæmi með hreinar og klárar ábendingar um hvaða greinar það eru í lögunum sem þurfi að lagfæra. Lagabálkurinn er umfangsmikill, hann er mjög til bóta og skerpir mjög á skyldum almennings til að ganga vel um náttúru Íslands ef litið er á núverandi lagaramma og hvetur okkur til þess að sýna ýtrustu varúð svo að henni verði ekki spillt, en jafnframt að sýna landeigendum og öðrum rétthöfum lands fulla tillitssemi og virða hagsmuni þeirra.

Það er mjög mikilvægt að við reynum eftir fremsta megni að koma til móts við þá agnúa sem hæstv. ráðherra telur vera á málinu. Það er samt sem áður þannig að þrátt fyrir þær deilur sem hann segir að hafi verið um málið voru lögin samþykkt á þinginu mótatkvæðalaust á síðasta kjörtímabili og meira að segja voru sjö þingmenn Framsóknarflokksins (Forseti hringir.) sem sátu hjá í málinu, voru ekki á móti því.