143. löggjafarþing — 8. fundur,  14. okt. 2013.

lagaumhverfi náttúruverndar.

[15:55]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég þakka fyrir þessar umræður. Ég verð að viðurkenna að ég varð frekar hissa og svolítið sjokkeruð þegar hæstv. ráðherra kom með yfirlýsingu um að fella þessi lög úr gildi, fannst það töluverð vanvirðing við þingið og ekki í takt við það sem hæstv. ráðherra sagði þegar hann var hv. þingmaður. Það breytist ýmislegt þegar fólk skiptir um hlutverk í hlutverkaleiknum stjórn og stjórnarandstaða.

Mig langaði að spyrja hæstv. ráðherra, og reyndar hafa þessar spurningar komið fram: Hvað nákvæmlega er þess eðlis að það þurfi að breyta því? Af hverju er ekki bara nóg að laga þær greinar?

Mig langar að biðja hæstv. ráðherra að endurskoða hug sinn í þessu máli. Ég er sannfærð um að þingið einhendir sér í það að laga þessar umdeildu greinar, sér í lagi þegar við erum búin að fá fram skýrt og skorinort hvaða greinar það eru.

Ég er alveg meðvituð um að það var ekki 100% sátt um þetta mál þegar það fór í gegnum þingið og var í umræðunni. Ég átti sæti hluta af tímanum í umhverfisnefnd á þessum tíma og mér fannst vinnan í kringum þetta mjög vönduð og upplýsandi. Það er mjög margt í þessum lögum sem er gott og allir voru sammála um það. Ég spyr: Til hvers að setja þessi mál í svona mikið uppnám? Það hafa verið mikil mótmæli og mikil andstaða við það sem maður upplifir sem svolítinn valdhroka af hálfu stjórnvalda þegar kemur að þessum málaflokki. Ég vona að hæstv. ráðherra eyði áhyggjum okkar á þessu sviði með því sem hann segir í seinni ræðu sinni.