143. löggjafarþing — 8. fundur,  14. okt. 2013.

lagaumhverfi náttúruverndar.

[15:57]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga efni. Þetta er viðfangsefni sem við komum til með að ræða hér ítrekað í vetur ef svo heldur fram sem horfir.

Þegar hæstv. ráðherra settist í sæti umhverfisráðherra talaði hann strax fyrir því að málaflokkurinn væri svo ómerkilegur að það ætti helst að leggja ráðuneytið niður. Málaflokkurinn hefur ítrekað verið lítilsvirtur í tíð þessarar ríkisstjórnar. Þegar síðan er boðað að afturkalla náttúruverndarlög, látum skilninginn á þingræðinu liggja á milli hluta, er það algjörlega í takti við það sem á undan er gengið. Það er settur maður í umhverfisráðuneytið sem hefur illan bifur á náttúruvernd. Það er í raun og veru staðan sem við horfumst í augu við. Hvers vegna þetta offors? Hvers vegna þessi yfirgangur? Hvers vegna þessi hamagangur, virðulegi forseti?

Á þingmálaskránni er ekkert frumvarp til náttúruverndarlaga. Frumvarpið um náttúruvernd á Íslandi er til þess að afturkalla lög sem horfðu til framfara. Það er metnaður nýrrar ríkisstjórnar í náttúruverndarmálum. Það er staðan og algjörlega í takti við það sem á undan er gengið.

Hæstv. ráðherra talar hér um að hann leggi til að gera þær breytingar sem gera þarf, það sé markmiðið með vinnunni. Gerum þá þær breytingar sem gera þarf, virðulegi forseti, og gerum það af skilningi, stöndum ekki hér og tölum um ferðamöguleika fatlaðra, tjöldun eða ágengar tegundir, allt saman fullyrðingar byggðar á sandi, byggðar einfaldlega á því að hæstv. ráðherra þekkir greinilega ekki lögin sem hann boðar afturköllun á.

Förum í þetta af yfirvegun. Þetta er fjögurra ára ítarleg vinna með gríðarlega miklu og flóknu samráði. Öllum þykir vænt um náttúruna, (Forseti hringir.) sem betur fer. Það hafa allir skoðanir á íslenskri náttúru. (Forseti hringir.) Þannig á það að vera. Við skulum gera þetta þannig að við berum virðingu fyrir þeirri vinnu (Forseti hringir.) sem var innt af hendi en ekki með svona aðferðum.