143. löggjafarþing — 8. fundur,  14. okt. 2013.

lagaumhverfi náttúruverndar.

[16:02]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Eins og komið hefur fram hjá ræðumönnum hér á undan var gífurleg vinna lögð í undirbúning við lagafrumvarpið sem samþykkt var á síðasta þingi og það var ekki bara áður en lagafrumvarpið var lagt fram sem gífurleg vinna var unnin heldur var líka gífurleg vinna lögð í frumvarpið í meðförum nefndarinnar og menn lögðu lykkju á leið sína til að ná víðtækri sátt. Öll sú vinna sem hefur verið við þetta mikla frumvarp sem samþykkt var hér mótatkvæðalaust — takið eftir, mótatkvæðalaust — var einmitt til að ná víðtækri sátt. En það er þannig að víðtæk sátt virðist í munni margra hér þýða að þar sé allt nákvæmlega eins og þeir vilja. Það er aldrei hægt að ná víðtækri sátt á þann veg, því miður.

Samþykki Alþingi nú að fella náttúruverndarlögin úr gildi munu lög nr. 44/1999 halda gildi sínu. Í sem stystu máli eru þau lög úrelt. Ég held að mikilvægi fárra málaflokka, ef nokkurra, hafi í hugum fólks, og kannski fremur í hugum venjulegs fólks en í hugum margra pólitíkusa, aukist jafn mikið á þeim 14 árum sem liðin eru síðan náttúruverndarlög voru sett síðast og í þessum málaflokki. Þess vegna er það alger tímaskekkja að ætla ekki að nýta þá miklu vinnu sem unnin hefur verið í málaflokknum og þá, ef verða vill, hæstv. ráðherra, leggja fram einhverja breytingartillögu við þá miklu vinnu, ef verða vill, en nema ekki lögin stórkarlalega úr gildi eins og ráðherrann hyggst leggja til.