143. löggjafarþing — 8. fundur,  14. okt. 2013.

lagaumhverfi náttúruverndar.

[16:05]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegi forseti. Við segjum oft að maður komi í manns stað og við vitum að peningur kemur í penings stað og alla vega þangað til manninum tekst að klára auðlindir jarðar á næstu árum mun dót koma í dóts stað, en ónýt náttúra, ónýtt hraun verður ekki bætt. Vegagerðin á því miður ekki lítil eldfjöll til að fylla upp í hraun sem hefur verið mokað í burtu.

Mig langar bara til að brýna það fyrir þingheimi og fyrir hæstv. ríkisstjórn að náttúran njóti vafans. Á síðasta kjörtímabili fór fram mikil vinna, mikið samráð til að undirbúa lögin sem hæstv. ráðherra talar nú um að afturkalla. Það má eflaust rífast um að ekki hafi verið haft nóg samráð við einhvern og einhverja, að niðurstaðan hafi ekki verið fullkomin í hjörtum allra en það er ástæðulaust að nota það sem átyllu til að byrja upp á nýtt og kasta burtu vinnu sem búið er að vinna.

Í mínum huga er óljóst hvort öll lögin eru óásættanleg í huga hæstv. ráðherra eða hvort það sé bara hluti sem á að endurskoða. Ég vil taka undir brýningu hv. þm. Róberts Marshalls um að við ræðum þessi mál af stillingu og þingheimur allur geri allt sem í hans valdi stendur til að náttúran njóti vafans. Eins og staðan er og miðað við orð hæstv. ráðherra hef ég ákveðnar áhyggjur, ég verð bara að segja það.